Samspil staðartengsla og náttúruváar

Matthias Kokorsch, fagstjóri meistaranáms hjá Háskólasetri Vestfjarða og Jóhanna Gísladóttir, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands hafa verið að rannsaka samspil staðartengsla og náttúruváar sem hluti af CliCNord verkefninu. CliCNord verkefnið fjallar um hvernig hægt sé að auka getu lítilla samfélaga á Norðurlöndunum til þess að bregðast við áhrifum loftslagsbreytinga. Markmið verkefnisins er að skoða hversu undirbúin lítil samfélög eru til að takast á við slíkar áskoranir, hvaða skilning þessi samfélög hafa á sínum aðstæðum, hvernig hæfni íbúa getur hjálpað til við að byggja upp getu samfélagsins og í hvaða aðstæðum þessi samfélög þurfa aðstoð. Verkefnið gengur út frá því að náttúruvá mun hafa aukin áhrif á þessi samfélög vegna loftslagsbreytinga en það sem hefur verið skoðað í CliCNord verkefninu er til að mynda ofanflóð, stormar, flóð og gróðureldar. Alls eru 8 rannsóknir unnar í 5 löndum: Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Færeyjum og Íslandi.

Gefum íslensku séns fær Evrópumerki

Átakið “Gefum íslensku séns” hefur hlotið viðurkenninguna Evrópumerki eða European Language Label. Viðurkenningin er fyrir tungumálakennara og/eða aðra sem koma að nýsköpun og tækniþróun í tungumálakennslu. Þau eru veitt af Mennta- og barnamálaráðuneyti og Rannís fyrir nýbreytniverkefni á sviði tungumálanáms og kennslu í samstarfi við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Evrópumerkinu er ætlað að beina athygli að frumlegum verkefnum í námi og kennslu erlendra tungumála og áhersla er lögð á nýbreytni og símenntun. Meira um Evrópumerkið er hægt að lesa hér.

Rannsóknir á Vestfjörðum kynntar í Vísindaporti

Á föstudaginn 10. Nóvember var Vísindaport Háskólaseturs Vestfjarða haldið utan veggja Háskólasetursins í fyrsta sinn. Viðburðurinn var haldinn í Blábankanum á Þingeyri þar sem fræðafólk á Vestfjörðum hélt stutta fyrirlestra um nýjustu rannsóknir sínar. Fræðafólkið tilheyrir Rannsóknarsamfélagi Vestfjarða sem er opinn hópur fólks sem stundar rannsóknir á Vestfjörðum og í nærumhverfi. Fyrirlesararnir voru meðal annars frá Háskólasetri Vestfjarða, Háskóla Íslands og Náttúrustofu Vestfjarða.