Öll þjónusta í Ísafjarðarbæ er eins og best verður á kosið; hér er fullkomið sjúkrahús og heilsugæsla, bókasafn, tónlistar- og listaskólar, framhaldsskóli og grunn- og leikskólar. Í miðbæ Ísafjarðar eru fjölbreyttar verslanir, kaffihús og veitingastaðir.

Á Ísafirði er aðstaða til útivistar og íþróttaiðkunar til fyrirmyndar, fjölmörg íþróttafélög eru starfrækt og líkamsræktarstöð er í miðbænum. Frábærar aðstæður eru til iðkunar vetraríþrótta og fjallamennsku en fjölbreyttar skíðabrekkur og skíðagöngubrautir eru steinsnar frá miðbænum. Auk þess er aðstaða fyrir hverskyns sjóíþróttir afar góð og skemmtilegur golfvöllur er í næsta nágrenni. Mikið sönglíf er á Ísafirði og eru nokkrir ólíkir áhugamannakórar starfandi í bænum.