Til að tryggja að þú hafir nægan pening til að framfleyta þér í gegnum námið á Ísafirði ættir þú að skipuleggja fjárhag þinn fyrirfram. 

Framfærslukostnaður nemenda á Ísafirði er almennt lægri en á höfuðborgarsvæðinu. Við gefum hér gróft mat á framfærslukostnaði fyrir einn einstakling á mánuði sem leigir íbúð hjá stúdentagörðum Háskólaseturs Vestfjarða. Athugið að framfærslukostnaður getur verið mismunandi eftir lífstíl og einungis er um dæmi að ræða.

Húsnæði (með hita og rafmagni): 130.000 kr á stúdentagörðum (ath: allir nemendur geta sótt um húsnæðis bætur)
Matvörur og aðrar nauðsynjar: 40.000 kr
Út að borða/félagslíf: 15.000 kr
Farsími (mánaðaráætlun): 3500 kr
Afþreying / tómstundir: 10.000 kr/mánuði eða meira ( t.d. skíðapassi, sundkort, líkamsrækt o.fl.)

Nemendur ættu því að skipuleggja útgjöld fyrir um það bil 200.000 krónur á mánuði (án húsnæðisbóta).

 

Unnið samhliða námi

Margir nemendur Háskólaseturs hafa einnig unnið með skóla. Þónokkrir atvinnumöguleikar eru í boði á Ísafirði og í nágrenni sem henta með námi en hafa ber í huga að atvinnumöguleikar fara eftir framboði hverju sinni. Hér fyrir neðan má sjá dæmi um störf sem nemendur hafa unnið við á Ísafirði um vetur eða sumar. Athugið að listinn er ekki tæmandi.

  • Kaffihús
  • Veitingastaður
  • Bar
  • Leiðsögumaður fyrir skemmtiferðaskipafarþega
  • Leiðsögumaður á Hornströndum
  • Leiðsögumaður á kayak
  • Afgreiðsla á skíðasvæði
  • Skíða- eða brettaþjálfari
  • Sundkennari
  • Bakarí
  • Afgreiðsla í sundlaug
  • Frístundarheimili
  • Íþróttahús
  • Klifurnámskeið
  • Hótel

 

Námskostnaður
Hjá Háskólasetri Vestfjarða eru engin skólagjöld, bara árlegt skráningargjald. Nemendur þurfa ekki að kaupa neinar bækur og geta einnig leigt út bækur á bókasafninu okkar.