Sjávarbyggðafræði er alþjóðlegt, þverfræðilegt meistaranám þar sem fengist er við tækifæri og áskoranir sjávarbyggða við Norður Atlantshaf og Norðurskautssvæðið þótt fræðin kunni að hafa víðari skírskotun.
Námið byggir einkum á inntaki og aðferðum félags- og hugvísinda, þ.m.t. landafræði, skipulagsfræði, félagsfræði og hagfræði. Skoðaðar eru aðgerðir í heimabyggð og hnattræn áhrif, og aðferðir og stefnur við að þróa sanngjarna og sjálfbæra framtíð fyrir sjávarbyggðir greindar, á bæði fræðilegan og praktískan máta.
Að námi loknu hafa nemendur öðlast nauðsynlegan skilning og færni til að takast á við þróun samtíma- og framtíðarbreytinga, -áskorana og umbreytingaferla í strandsamfélögum og -svæðum.
Námið í hnotskurn
Námið er 120 ECTS eininga nám á meistarastigi, þar af eru 75 ECTS í formi námskeiða og 45 ECTS í formi lokaritgerðar. Öll námskeið eru kennd í lotum frá ágúst til júní árið eftir. Loturnar eru frá 1 ECTS upp að 8 ECTS og taka eina til þrjár vikur í senn. Vinnuálag fyrir hverja ECTS einingu nemur að jafnaði um 25-30 klukkustundum. Kennslu- og samskiptatungumál námsins er enska. Kennslan fer fram á Ísafirði.
Lýsing
Fyrra árið samanstendur af skyldu- og valnámskeiðum samkvæmt kennsluáætlun. Eftir að námskeiðum lýkur, um mánaðamótin júní/júlí, tekur 45 ECTS meistaraverkefni við. Nemendur hafa frjálst val um efni lokaverkefnis og jafnframt hvort þeir eru staðsettir á Vestfjörðum á meðan á vinnslu lokaverkefnis stendur. Lokaritgerð er skilað til prófdæmingar í upphafi vorannar næsta árs.
Námið spannar vítt svið land- og byggðaþróunarfræða en nemendur geta sérhæft sig innan þess með valnámskeiðum og með efnisvali fyrir lokaritgerð. Námsmönnum stendur til boða að taka valnámskeið hjá öðrum háskólum, ef meistaranámsnefndin samþykkir.
Námið er í boði Háskólaseturs Vestfjarða á Ísafirði í samstarfi við Háskólann á Akureyri en þaðan útskrifast nemendur formlega með MA gráðu. Háskólasetur Vestfjarða skipuleggur og stýrir hins vegar námsleiðinni að fullu og öll kennsla fer fram í Háskólasetri, á Ísafirði.
Fagstjóri
Dr. Matthias Kokorsch er fagstjóri meistaranáms í sjávarbyggðafræði við Háskólasetur Vestfjarða. Matthias lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands í landfræði, kennsluréttindum í landfræði, félagsvísindum og kennslufræðum frá Háskólanum í Duisburg og Essen. Doktorsritgerð hans frá Háskóla Íslands ber titilinn „Mapping Resilience – Coastal communities in Iceland“ (Seigla íslenskra sjávarbyggða).
Rannsóknir Matthiasar snúa einkum að byggðaþróun og samfélagslegri seiglu í dreifbýli, formgerðarbreytingum á rótgrónum iðnaðarsvæðum og auðlindastjórnun í samhengi við réttlæti og ákvörðunartöku. Meðal nýlegra ritsmíða Matthiasar má nefna „Prosper or perish? The development of Icelandic Fishing villages after the privatisation of fishing rights“ og „Where have all the people gone? The limits of resilience in coastal communities.“ Einnig hefur Matthias gefið út greinar um fiskveiðistjórnun á Íslandi. Áður en hann hóf störf við Háskólasetur Vestfjarða starfaði Matthias við Thünen Institute of Rural Studies í Þýskalandi auk þess að kenna við Háskólann í Hanover.
Fagstjóri meistaranáms í sjávarbyggðafræðum hefur eftirfarandi hlutverk:
Nemendur vinna sjálfstæða rannsókn og skulu skrifa 45 ECTS lokaverkefni á síðara ári meistarnáms, hvort sem er á ensku eða íslensku.
Viðfangsefni
Rannsóknarefni lokaritgerðar skal ákveðið í samráði við fagstjóra, sem aðstoða einnig við val á leiðbeinendum. Nemendur þurfa ekki að hafa fullmótaða rannsóknarspurningu þegar þeir hefja vinnu við lokaritgerðina, flest kjarnanámskeiðin eru kennd á haustönn og er hún því besti tíminn til að fá innblástur fyrir lokaverkefnið. Nemendur hafa aðgang að kennurum, bæði í kennslustundum og viðtalstímum, til að ræða möguleg viðfangsefni.
Rannsóknarspurningar
Þróun rannsóknarspurninga hefst formlega í upphafi vorannar með málstofu í drögum að rannsóknaráætlun, sem er skyldunámskeið. Það er tveggja eininga málstofa sem varir alla önnina og læra nemendur þar um rannsóknarvinnu og fræðileg skrif. Í námskeiðinu Hagnýt aðferðafræði, sem er einnig skyldunámskeið, kynnast nemendur mismunandi rannsóknaraðferðum, hvaða aðferð hentar þeirra rannsókn og fræðistörfum í framtíðinni.
Val á leiðbeinanda
Nemendur Háskólaseturs Vestfjarða hafa talsvert frelsi við val á viðfangsefni og leiðbeinendum fyrir lokaverkefnin sín. Leiðbeinandinn getur verið kennari við námsleiðina en einnig fræðimaður við aðra samstarfsháskóla eða rannsóknarstofnanir hérlendis jafnt sem erlendis, en slíkt er þó háð samþykki meistaranámsnefndar.
Lokaverkefnisskrif - Ísafjörður, London, New York!
Nemendur hafa frelsi til að velja viðfangsefni hvar sem er í heiminum. Sífellt fleiri annars árs nemar, allt að helmingur, kjósa að dvelja á Vestfjörðum við skrifin og þau sem vilja vinna rannsóknarverkefni tengt landshlutanum geta fengið aðstoð hjá Háskólasetri við að tengjast stofnunum og fyrirtækjum á svæðinu.
Skilyrði fyrir inntöku í nám í haf- og strandsvæðastjórnun eru:
Ísafjörður er höfuðstaður Vestfjarða og þar býr yfir helmingur allra íbúa svæðisins, sem allt í allt telja um 7.000. Bæjarstæðið er í stórbrotnu landslagi og stutt er að fara til að sjá ósnortnar náttúruperlur á borð við Hornstrandir og Jökulfirði. Góðar samgöngur eru milli Ísafjarðar og suðvesturhornsins, 5-6 tíma akstur er til höfuðborgarinnar á bundnu slitlagi og einungis tekur um 40 mínútur að fljúga þangað í innanlandsflugi, en að jafnaði eru tvö flug til og frá Ísafirði á dag.