Háskólasetur Vestfjarða, UW var stofnað 2005, að tilstuðlan Vestfirðinga, með það að markmiði að efla Vestfirði. Vestfirðir höfðu þá tapað um 30% íbúa sinna á 30 árum.

Það var skýr krafa að Háskólasetrið ætti að bjóða upp á staðbundið nám á háskólastígi, en á sama tíma átti það að þjónusta Vestfirðinga í fjarnámi, sem var nokkuð nýtt fyrirkomulag þá.

Á upphafsárum Háskólaseturs voru níu háskólar á landinu og hví ekki tíu? Ráðuneytið hafði þó þá þegar hugmyndir um að sameina háskóla frekar en að stofna nýja. Háskólasetur Vestfjarða þróaðist milli þessara póla og naut til þess mikillar velvildar, bæði heimamanna og ráðuneytis.

Háskólasetur er því óháð stofnun sem starfar að mestu sem háskóli væri en sækir fullgildingu námsins sem það býður gegnum samstarfssamning við Háskólann á Akureyri.

Háskólasetur Vestfjarða var stofnað af Vestfirðingum til að efla Vestfirði og er það innprentað djúpt í sjálfsmynd Háskólaseturs. Það er í senn mjög vestfirsk og mjög alþjóðleg stofnun og um leið hlekkur í íslenska háskólakerfinu.