Nemendur spyrja oft hvora námsleiðina þeir eigi að velja. Svarið við því er ekki alltaf einfalt en eins og þú getur séð hér fyrir neðan muntu hafa einstaklingsmiðað og sveigjanlegt val um námskeið úr báðum námsleiðunum.

Meistaragráðan

Ein leið til að líta á þetta val milli námsleiðanna er að skoða námsgráðurnar sem þær veita: nemendur í Sjávarbyggðafræði (CRD) ljúka MA gráðu (Master of Arts) en nemendur í Haf- og strandsvæðastjórnun (CMM) ljúka MRM gráðu (Master of Resource Management). Þegar skyldunámskeiðin eru skoðuð sést að CRD námskeiðin (Sjávarbyggðafræði) eru byggð á félagsvísindum, s.s. mannvistarlandafræði, félagsfræði, hagfræði og skipulagsmálum. Þessi námsleið kannar tækifæri og áskoranir í þróun sjávarbyggða og hvernig byggja eigi undir seiglu og sjálfbærni í byggðum við sjávarsíðuna. Hin námsleiðin, CMM, sameinar þætti náttúru- og félagsvísinda við stjórnunarfræði til að kanna fjölbreytt atriði innan haf- og strandkerfa. Eitt meginmarkmið þessarar námsleiðar er að útskrifa fólk sem getur stjórnað þessum kerfum á sjálfbæran máta.

Akademískur bakgrunnur

Þrátt fyrir að æskilegt sé að nemendur velji námsleið út frá bakgrunni þeirra í skyldum fögum, þá er slíkur bakgrunnur ekki skilyrði fyrir skráningu. Ef þú hefur annan akademískan bakgrunn en þau fræði sem námsleiðinin sem þú sækir um tilheyrir, biðjum við þig að skýra áhuga þinn á námsleiðinni í umsóknarferlinu svo við getum betur skilið ástæður þínar og bakgrunn. Engar áhyggjur, við höfum farsæl dæmi um nemendur með ólíkan akademískan bakgrunn sem hafa samt sem áður útskrifast af annarri hvorri námsleiðinni.

Áhugasvið

Báðar námsleiðirnar bjóða upp á talsverðan sveigjanleika. Af 75 námskeiðseiningum eru 24 úr skyldunámskeiðum námsleiðarinnar og 10 úr skyldunámskeiðum beggja námsleiðanna. Það þýðir að 41 eining næst úr okkar fjölbreyttu valnámskeiðum og þannig getur þú aðlagað námið að þínu áhugasviði. Ef þú ákveður að áhugasvið þitt liggi meira hjá hinni námsleiðinni geturðu tekið kjarnanámskeiðin þar sem valnámskeið. Þú getur líka valið efni lokaverkefnisins út frá áhugasviði þínu (þó skv. skilyrðum námsleiðarinnar).

Ef þú vilt ræða möguleika þína við val á námsleið geturðu haft samband og fengið fund með okkur þar sem við aðstoðum þig við að skilja valmöguleikana betur. Þú getur líka sótt um báðar námsleiðirnar og við veljum þá leið sem okkur þykir best hæfa miðað við þinn bakgrunn og áhugasvið.