Við fáum iðulega spurningar um möguleika á styrkjum vegna náms við Háskólasetur Vestfjarða. Háskólasetrið hvorki veitir né hefur milligöngu um ákveðna styrki en þar sem skráningargjöldin eru hófleg vonum við að nám við UW sé öllum mögulegt. Nemendur geta að sjálfsögðu fjármagnað nám sitt eftir öðrum leiðum, líkt og í öðru námi á Íslandi.

Þess utan reynum við okkar besta við að aðstoða nemendur við að sækja styrki vegna lokaverkefna og annarra verkefna sem tengjast náminu. Þar geta okkar fjölmörgu stundakennarar komið að liði með tengsl við sínar stofnanir og víðtækt tengslanet en einnig hlerum við eftir tilfallandi styrkjum og fjármögnuðum verkefnum.

Við fáum einnig mjög oft fyrirspurnir frá stofnunum á svæðinu um að koma á tengslum við nemendur okkar, varðandi sjálfstæð rannsóknaverkefni, sem þá er oftast greitt fyrir.

Síðast en ekki síst höfum við verið farsæl við að tryggja okkur margskonar styrki frá RANNÍS á síðustu árum.