Háskólasetur Vestfjarða, UW, er minnsta stofnun sem starfar á háskólastigi á Íslandi. UW býður upp á tvær meistaranámsleiðir en hefur til þess gert samning við Háskólann á Akureyri um fullgildingu náms.

Meistaranámið í Haf- og strandsvæðastjórnun og meistaranámið í Byggðafræði eru bæði þverfaglegar alþjóðlegar námsleiðir sem mynda kjarnan í starfsemi Háskólaseturs og laða að sér nemendur, kennara og
rannsóknarmenn. Áhersla UW í bæði kennslu og rannsóknum er því eðlilega á málefnum hafs og strandsvæða annars vegar og byggðaþróunar hins vegar.

Háskólasetrið býður upp á sumarnámskeið og þjónustu fyrir vettvangsskóla, sem koma til Vestfjarða allt frá fáeinum dögum að nokkrum vikum. Háskólasetur Vestfjarða hefur gert umfangsmikinn samning við World Learning/SIT háskóla í Vermont/BNA og hýsir meistaranámsleið SIT.

Á hverjum tíma eru um 70-80 nemendur á Ísafirði á vegum Háskólaseturs.

Fyrir alla þá Vestfirðinga sem eru í fjarnámi við innlendan eða erlendan háskóla er Háskólasetrið fjarnámssetur sem veitur þeim þjónustu, aðallega lesaðstöðu og prófþjónustu. Í gegnum fjarnámið sækja Vestfirðingar menntun án þess að þurfa að flytja úr heimabyggð sinni. 

Í gegnum árin hefur byggst upp víðtækt tengslanet rannsóknarmanna, kennara og fyrrverandi nemenda og þjónustar UW  bæði innlenda sem erlenda rannsóknarmenn sem starfa á sviði rannsókna á Vestfjörðum. Þó Háskólasetrið sé ekki skilgreind sem rannsóknarstofnun, hafa rannsóknir verið sá þáttur starfseminnar sem hefur vaxið hvað mest á síðustu árum.

UW er stærsta stofnunin í Vestrahúsinu á Ísafirði og leiðandi í samstarfi stofnana í rannsóknaklasa Vestfjarða.

UW var stofnað af Vestfirðingum með það í huga að efla Vestfirði og hefur það verið leiðarljósið í gegnum árin. Á sama tíma er UW ein af alþjóðlegustu stofnunum meðal háskólastofnana á landsvísu.