Forkröfur fyrir inngöngu í framhaldsnám hjá Háskólasetri Vestfjarða, eru að hafa lokið BA- eða BSc-gráðu eða sambærilegu háskólanámi, helst með fyrstu einkunn (hærra en 7,25 á íslenska einkunnaskalanum) frá alþjóðlega viðurkenndum háskóla. Í þessu samhengi er bakkalárgráða skilgreind sem prófgráða frá háskólastofnun þar sem nemandi hefur lokið að minnsta kosti 180 ECTS-einingum í skipulögðu námsprógrammi.

Fullbúin umsókn er almenn krafa fyrir inntöku. Það er á ábyrgð umsækjandans að lesa og skilja skilyrði umsóknarinnar og skila öllum nauðsynlegum gögnum fyrir umsóknarfrest.

Enska er samskipta- og kennslumál námsins. Gert er ráð fyrir að umsækjendur frá Íslandi, Norðurlöndunum og enskumælandi löndum búi yfir fullnægjandi kunnáttu og færni í tungumálinu. Sama á við um nemendur frá háskólum þar sem öll kennsla fer fram á ensku. Aðrir umsækjendur skulu sýna fram á nægjanlega enskukunnáttu með viðurkenndum prófum, t.d. TOEFL eða öðrum sambærilegum prófum.