Árneshreppur gefur íslensku séns

Margt var um að vera í samkomuhúsinu í Trékyllisvík í Árneshreppi á Ströndum um helgina þegar átakið „Gefum Íslensku Séns – Íslenskuvænt Samfélag“ var kynnt. Að sögn Ólafs Guðsteins Kristjánssonar, umsjónarmanns íslenskunáms við Háskólasetur Vestfjarða snýst átakið mikið um vitundarvakningu, hvað felst í því að læra íslensku og hvernig við sem samfélag getum stuðlað að framförum fólks í íslensku og að fólk hafi tækifæri til að nota málið við sem flest tækifæri. Markmiðið átaksins er að stuðla að auknum möguleikum fólks í notkun íslensku á sem víðtækastan og fjölbreyttastan hátt, að þau sem læra málið, sama hvar á vegi þeir eru staddir, fái stuðning og skilning þeirra sem hafa vald á íslensku. Að átakinu standa Háskólasetur Vestfjarða, Fræðslumiðstöð Vestfjarða og Ísafjarðarbær.

Könnuðu framtíð haf- og strandsvæða á Vestfjörðum

Hópur nemenda frá Háskólasetri fór á dögunum í vettvangsferð og heimsótti Ósvör, Bolafjall og Holt í Önundafirði. Hópurinn samanstóð af nemendum úr tveimur námskeiðum sem kennd eru á sitthvorum meistaranámsleiðum. Annað námskeiðið er „People and the sea: Geographical perspectives“ sem er skyldunámskeið í sjávarbyggðafræði þar sem einblínt er á að skilja tengingu fólks við hafið með hugtökum úr landafræði. Hitt námskeiðið er „Coastal and Marine Management: Theory and Tools“ sem er skyldunámskeið í Haf- og strandsvæðastjórnun þar sem nemendur læra um kenningar, stefnumótun, löggjöf og tól í haf- og strandsvæðastjórnun.