Á þessari síðu má sjá yfirlit yfir þau íslenskunámskeið sem Háskólasetur Vestfjarða hefur upp á að bjóða. Sérstaða námskeiðanna er staðsetningin. Ísafjarðarbær er lítill bær sem þó hefur flest það sem einkennir stærri bæi. Hér er bíó, veitingastaðir, tónlistarskóli, sundlaug, íþróttafélög, kórar og svo framvegis. Íslenskunámskeiðin færa sér þetta í nyt auk þess sem bæjarbúar eru oftast mjög viljugir til að hjálpa til við íslenskunámið og gefa sér tíma. Ísafjörður er enda venjulega frekar rólegur staður þar sem hlutirnir þurfa ekki alltaf að ganga hratt fyrir sig. Við reynum alltaf að gera samfélagið að hluta námskeiðanna enda trúum við því að tungumál lærist best með því að nota það. Í kennslustofunni fá nemendur tól og tæki málsins en úti í samfélaginu tækifæri til að nota það sem þeir læra í skólanum og hvata til þess.

Íslenskunámskeiðin notast við Evrópska tungumálarammann og eru á erfiðleikastigi frá A1 (byrjendur) til B2 (framhaldsnemar).

 

Íslenskunámskeið í boði

Byrjendur A1  (stutt námskeið)

Lengd námskeiðs: 5 dagar
Klukkustundir: 35-40
Kennt á: vorönn/sumarönn
Námsefni: innifalið
Áherslur: hversdagsorðaforði, einföld málfræði

A1 íslenskunámskeið fyrir byrjendur er stíft og nokkuð fjölbreytt 5 daga námskeið. Tímafjöldi er um það bil 35 kennslustundir (45 mínútur hver kennslustund). Námskeiðið er kennt á vorin og sumrin og hentar vel sem undirbúningur fyrir frekara íslenskunám en er jafnframt þannig sett upp að það gagnast fólki svo að það getur strax byrjað að nota íslensku. Lykilatriði í að læra tungumál er að nota það.

Í námskeiðinu er lögð áhersla á hversdagsorðaforða og einfalda og praktíska málfræði sem krefst ekki mikillar kunnáttu í málfræði. Reynt er að kenna efni sem gagnast við hversdagslegar aðstæður eins og þegar fólk pantar mat og drykk og eða tjáir sig um veðrið í heita pottinum. Einnig fá nemendur nasasjón af íslenskri menningu og unnið er með framburð, lestur og hlustun á einfaldan hátt. Kennarinn notar glærur sem hann deilir með nemendum. Nemendur fá einnig kennsluhefti sem er sérstaklega gert fyrir A1 námskeiðið, ásamt hljóðskrám. 

A1 vikunámskeið Háskólaseturs tekur mið af evrópska tungumálarammanum eins og öll íslenskunámskeið Háskólaseturs og er stíft og nokkuð fjölbreytt námskeið þar sem áhersla er lögð á praktíska notkun málsins. Engrar formlegrar þekkingar er krafist en nemendum er bent á að hægt er að undirbúa sig í gegnum Icelandic Online sér að kostnaðarlausu.

Byrjendur A1-A2

Lengd námskeiðs: um 3 vikur
Klukkustundir: 75
Kennt á: sumarönn
Námsefni: innifalið
Áherslur: orðaforði, einföld málfræði, menning, talfærni, framburður og skrif

Byrjendur A1-A2 er þriggja vikna stíft og fjölbreytt námskeið á stigi A1-A2 evrópska tungumálarammans. Námskeiðið miðar að því að læra eins mikið og hægt er á sem skemmstum tíma, að fá eins mikinn grunn í málinu og hægt er. Aðaláherslan er á hversdagslíf þegar kemur að orðaforða og málfræði en einnig spilar menning rullu í dagskránni, aðallega vestfirsk menning. Talfærni er einnig æfð, ásamt framburði og skriffærni. Námskeiðið gagnast erlendum skiptinemum við háskóla en einnig ferðamönnum og þeim sem hafa aðsetur á Íslandi og vilja stíga fyrstu sporin á íslenskubrautinni. Námskeiðið er góður grunnur að frekara íslenskunámi.

Að námskeiði loknu geta nemendur verið á stigi A1-A2 samkvæmt samevrópska tungumálarammanum. Vinsamlegast athugið að ef fjöldi þátttakenda er lægri en 6 verða kennslustundir færri og námskeiðið verður einstaklingsmiðað. 

Fyrir lengra komin B1

Lengd námskeiðs: um 2 vikur
Klukkustundir: 55
Kennt á: sumarönn
Námsefni: innifalið
Áherslur: aukinn orðaforði, uppbygging tungumálsins, þátttaka í hversdagslífi á Ísafirði

Þetta námskeið er sérstaklega hannað fyrir fólk sem vill þróa með sér fyrri þekkingu á íslensku. Þetta tveggja vikna námskeið fyrir lengra komin mun færa íslenskufærni þína á næsta stig.

Nemendur læra hvernig hægt er að bæta orðaforða í íslensku á áhrifaríkan hátt og munu dýpka skilning sinn á uppbyggingu tungumálsins með fyrirlestrum og æfingum. Nemendur munu einnig taka þátt í hversdafslífinu á Ísafirði sem er afar skemmtileg leið til þess að fá tilfinningu fyrir tungumálinu og samfélaginu.

Námskeiðið er um 55 tímar af fjölbreyttri og áhugaverðri kennslu, þar á meðal lestur, skrif, samtöl ofl. á B1 stigi samevrópska tungumálaramms. Allt námsefni er lagt til af kennurum og verður fáanlegt í Háskólasetri við komu. Kennsla fer mestmegnis fram á íslensku, en kennarar munu styðjast við ensku til að útskýra flókið efni eins og málfræðispurningar.

Framhaldsnámskeið B2  (vetur)

Lengd námskeiðs: 1 vika
Klukkustundir: 35-40
Kennt á: vorönn (kringum páska og aldrei fór ég suður)
Námsefni: innifalið
Áherslur: hlustun, lestur, samræður, talmál, skriftir. Kennsla fer fram á íslensku

Háskólasetur Vestfjarða býður upp á vikulangt framhaldsnámskeið á stigi B2 yfir vetrartímann. Námskeiðið er hannað til að mæta þörfum nemenda sem eru lengra komnir í íslenskunámi og vilja bæta við færni sína. Námskeiðið fer fram á Ísafirði og er staðsetning námskeiðsins notuð á fjölbreyttan hátt í kennslunni. Námskeiðið er haldið í kringum páskavikuna og tónlistarhátíðina Aldrei fór ég suður. Það er því kjörið tækifæri að slá tvær flugur í einu höggi og læra íslensku á einni skemmtilegustu viku ársins á Ísafirði.

Námskeiðið tekur mið af evrópska tungamálarammanum og verður leitast við að æfa alla fimm þætti hans á gagnvirkan hátt (hlustun, lestur, samræður, talmál, skriftir). Námskeiðið fer allt fram á íslensku. Því er nauðsynlegt að þátttakendur hafi góðan skilning á íslensku og geti haldið uppi skilvirkum samræðum. Þeir þurfa til dæmis að skilja að mestu leyti það sem er í fréttum og geta lesið sér til gagns og gamans.

Lögð er áhersla á orðaforða með lestri valdra texta: blaðagreinar; brot úr skáldsögum; pistla og ljóð. Eins og í öðrum námskeiðum Háskólaseturs verður einnig lögð áhersla á efni sem tengist Vestfjörðum og Ísafirði, meðal annars menningu, sögu og náttúru svæðisins. Kennslan verður í fyrirlestraformi og samræðum í tímum en einnig verður farið í heimsóknir á valda staði á Ísafirði og nágrenni, hlustað á kynningar og talað um viðfangsefni kynninganna.

Nemendur setja saman texta um heimsóknir og upplifun sína með aðstoð kennara. Eftir kennslu hvers dags fá nemendur heimaverkefni sem kennarinn fer yfir og aðstoðar nemendur með það sem betur má fara. Á námskeiðinu horfa nemendur á valdar íslenskar kvikmyndir með íslenskum texta ásamt kennara.

Ekki er lögð áhersla á málfræði en þó verður eitthvað farið í málfræðiatriði sem hæfa þessu stigi.

Framhaldsnámskeið B2  (sumar)

Lengd námskeiðs: 5 dagar
Klukkustundir: 30
Kennt á: sumarönn
Námsefni: innifalið
Áherslur: hlustun, lestur, samræður, talmál, skriftir. Kennsla fer fram á íslensku

Háskólasetur Vestfjarða býður upp á 5 daga framhaldsnámskeið á stigi B2 yfir sumartímann. Námskeiðið er hannað til að mæta þörfum nemenda sem eru lengra komnir í íslenskunámi og vilja bæta við færni sína. Námskeiðið fer fram á Ísafirði og er staðsetning námskeiðsins notuð á fjölbreyttan hátt í kennslunni.

Námskeiðið tekur mið af evrópska tungamálarammanum og verður leitast við að æfa alla fimm þætti hans á gagnvirkan hátt (hlustun, lestur, samræður, talmál, skriftir). Námskeiðið fer allt fram á íslensku. Því er nauðsynlegt að þátttakendur hafi góðan skilning á íslensku og geti haldið uppi skilvirkum samræðum. Þeir þurfa til dæmis að skilja að mestu leyti það sem er í fréttum og geta lesið sér til gagns og gamans.

Lögð er áhersla á orðaforða með lestri valdra texta: blaðagreinar; brot úr skáldsögum; pistla og ljóð. Eins og í öðrum námskeiðum Háskólaseturs verður einnig lögð áhersla á efni sem tengist Vestfjörðum og Ísafirði, meðal annars menningu, sögu og náttúru svæðisins. Kennslan verður í fyrirlestraformi og samræðum í tímum en einnig verður farið í heimsóknir á valda staði á Ísafirði og nágrenni, hlustað á kynningar og talað um viðfangsefni kynninganna.

Nemendur setja saman texta um heimsóknir og upplifun sína með aðstoð kennara. Eftir kennslu hvers dags fá nemendur heimaverkefni sem kennarinn fer yfir og aðstoðar nemendur með það sem betur má fara. Á námskeiðinu horfa nemendur á valdar íslenskar kvikmyndir með íslenskum texta ásamt kennara.

Ekki er lögð áhersla á málfræði en þó verður eitthvað farið í málfræðiatriði sem hæfa þessu stigi.

 


Námsefni

Allt námsefni er lagt til af kennurum og verður fáanlegt í Háskólasetri við komu. Námsefnið er innifalið í verðinu á námskeiðinu. Mælt er með því að nemendur komi með eigin fartölvu og orðabók.

 

Forkröfur

Fólk nálgast tungumálanám á ólíkan og einstaklingsbundinn hátt. Er því best ef nemendur meta sjálfir hvar þeir standa og meti hvaða námskeið passi þeirra getustigi best. Þess vegna er gott að kynna sér evrópska tungumálarammann og skoða einnig sjálfsmatsrammann til að staðsetja færni sína. Ef þú ert óviss um hvar þú stendur er auðvitað gott að hafa samband við okkur.

Einu forkröfurnar eru fyrir námskeiðin "byrjendur A1" og "byrjendur A1-A2". Þátttakendur eru beðnir að taka fría netnámskeiðið Bjargir á Icelandic Online (skráning æskileg). Svo þú fáir sem mest úr námskeiðinu sem þú velur er gott að undirbúa sig. Kennarar A1 og A1-A2 munu hafa netnámskeiðið til hliðsjónar á námskeiðunum. 

 

Að loknu námskeiði (valfrjálst próf)

Allir þátttakendur í íslenskunámskeiðum fá staðfestingu á þátttöku að loknu námskeiði. Sumir þátttakendur þurfa þó staðfestingu með einkunn. Vegna þess höfum við þróað valfrjálst próf sem mælir hæfni á eftirfarandi stigum: lestri, skilningi, skrif, hlustun og samskiptum. Nemendur sem óska eftir því að taka þetta próf þurfa að skrá sig áður en námskeiðið hefst og þurfa að greiða 7500 kr til að þeyta prófið. Prófið fer fram á seinasta degi námskeiðsins. 

 

Kennarar námskeiðanna

Eiríkur Sturla Ólafsson

Eiríkur Sturla Ólafsson (f. 1976 í Reykjavík) er með BA-gráðu í þýsku og sagnfræði sem og MA-gráðu í þýðingafræði, og lauk námi 2005. Hann lærði í Reykjavík, Köln og Berlín. Hann er dulítill nörd þegar kemur að tungumálum og þá sérstaklega málfræði, og hefur sérstakan áhuga á latínu, þýsku, íslensku (nema hvað), japönsku og orðsifjafræði.

Eiríkur (eða Eiki eins og flestir kalla hann) hefur kennt íslensku sem erlent mál síðan 2007 þegar hann byrjaði að kenna í Zürich í Sviss. Eftir að hafa kennt í Berlín í 6 ár, flutti hann sig um set til Kína og hefur kennt þar við Beijing-háskóla erlendra fræða síðastliðin 8 ár, en þó með hléum undanfarið vegna heimsfaraldursins. Það er þó að breytast til batnaðar.

Eiki hefur gert eitt og annað meðfram kennslustörfum sínum, stundað íþróttir, ferðablaðamennsku, þýðingar og skrif. Hans aðaláhugamál eru ferðalög og kennslan er það sömuleiðis. Hann tekur sundferðir sínar afar alvarlega og skilur ekki landa sína sem hanga bara í heita pottinum í stað þess að taka góðan sprett í lauginni.

Kolfinna Jónatansdóttir

Kolfinna Jónatansdóttir er menntuð í íslenskum bókmenntum og málfræði. Hún hefur kennt íslensku sem annað mál í Háskóla Íslands um nokkurra ára skeið og finnst gaman að kynnast nemendum frá ólíkum löndum og menningu þeirra. Hún er ættuð frá Vestfjörðum og dvaldi oft á Ísafirði á sumrin sem barn.
Marc Daníel Skipstað Volhardt

Marc Daníel Skipstað Volhardt er málvísindamaður frá HÍ en hefur líka stundað nám við Kaupmannahafnarháskóla í Danmörku og Háskólann í Tromsø í Noregi, sérsvið hans er hljóðfræði, hljóðkerfisfræði, Norðurlönd og Norðurlandamál, mállýskur, frumbyggjamál og hefur hann meðal annars stundað rannsóknir í Mexíkó á málinu otomí. Hann Kennir íslensku sem annað mál, dönsku sem annað mál, skandinavísk fræði ásamt almennum málvísindum við HÍ. Í frístundum sínum hefur hann gaman af ferðalögum, ljósmyndun, náttúru og finnst best að fá sér uppáhellt brúsakaffi á bensínstöð.

María Garðarsdóttir
María Garðarsdóttir (f. 1963) stundaði nám í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands og hefur kennt íslensku sem annað mál við sama skóla um langan aldur enda nýtur hún sín hvergi betur en með stúdentum í kennslustofu. Rannsóknir á máltileinkun eru henni líka hugleiknar og hefur hún einkum og sér í lagi skoðað þróun falla í tileinkun íslensku. Þágufall er uppáhaldsfallið hennar.
 
María vill helst alltaf tala íslensku og gerir sér far um að tala hana við hvert tækifæri við hvern þann sem numið hefur hér land. Hún hefur þó mikinn áhuga á tungumálum almennt, en vill þó fremur tala um þau en að tala þau sjálf. Uppáhaldstungumálið hennar er færeyska.

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson hefur umtalsverða reynslu af því að kenna íslensku sem annað mál og hefur kennt við marga skóla og stofnanir í gegnum tíðina. Frá árinu 2010 hefur hann kennt íslensku við Háskólasetur Vestfjarða auk þess sem hann hefur kennt fyrir SIT vettvangskólann síðan 2014. Þar að auki kennir hann íslensku sem annað mál við Háskóla Íslands og er, um þessar mundir, umsjónarmaður íslenskunámskeiða Háskólaseturs.

Hann er áhugasamur kennari sem hugnast vel forvitnir nemendur og vel fær um að útskýra allt milli himins og jarðar hvort sem það eru óreglulegar sagnir eða íslensk tónlist.

Ugla Egilsdóttir

Ugla Egilsdóttir (f. 1986 í Reykjavík) er með BA-próf í frönsku og íslensku frá Háskóla Íslands. Hún lauk einnig námi í fræði og framkvæmd við leiklistardeild Listaháskóla Íslands árið 2011. Hún hefur verið skiptinemi í Malasíu, Frakklandi og Noregi. Hún hefur kennt íslensku sem annað mál á sumarnámskeiðum í HÍ þrjú sumur. Hún stundar meistaranám í ritlist við Háskóla Íslands og hefur mikinn áhuga á tungumálum.

Vaida Bražiūnaitė

Vaida Bražiūnaitė er upprunalega frá Litháen en hefur búið á Íslandi í ellefu ár. Vaida er með BA-próf í bókasafnsfræði frá Vilníus-háskóla og meistaragráðu í sjónrænni mannfræði við Háskólann í Tromsø í Noregi. Í ár lauk hún BA-námi við HÍ þar sem hún lærði íslensku sem annað mál. Vaida kennir íslensku fyrir byrjendur við Fræðslumiðstöð Vestfjarða og Háskólasetur Vestfjarða. Nú í haust tekur hún við nýju starfi sem kennari á íslenskubraut við Menntaskólann á Ísafirði.

Vaida telur að allir hafi sögu að segja, þess vegna safnar hún sögum. Áhugi hennar liggur í því að skapa rými og tækifæri til að deila persónulegri og hversdagslegri reynslu okkar. Hún er nú aðallega heilluð af innflytjendasögum og íslenskum bókmenntum af erlendum uppruna. Vaida trúir því að allir geti verið skáld og á þessu námskeiði munum við læra íslensku og einnig leika okkur með tungumálið til að finna saman fegurð þess.