Tveir hópar vettvangsnema frá SIT við nám hjá Háskólasetri

Eftir annasamt sumar í Háskólasetri Vestfjarða, er haustið tekið við með öllum sínum venjulega erli. Mastersnemar í Haf- og strandsvæðastjórnun og Sjávarbyggðafræði mættu á svæðið fyrir rúmri viku og er námið strax komið á fullt.

En það þýðir ekki að við séum ekki að taka á móti gestum, því tveir vettvangsskólahópar frá SIT (School of International Training) eru við nám hjá HV um þessar mundir.

SIT Iceland: Climate Change and the Arctic

Hópur 20 nemenda í grunnámi, alls staðar að úr Bandaríkjunum, komu í lok ágúst og verða í mánuð á Ísafirði. Nemendurnir eru á ólíkum námsbrautum, en allar tengjast þær þó umhverfisfræðum, loftslagsbreytingum og Norðurslóðum. Nemarnir hafa líka mikinn áhuga á íslenskri menningu og fá gott tækifæri til að kynnast henni þar sem þau búa hjá Vestfirskum gestafjölskyldum á Ísafirði og Flateyri.

Á meðan krakkarnir dvelja á Ísafirðir munu þau hitta vettvangsrannsakendur og ýmsa sérfræðinga á Vestfjörðum til að fræðast um loftslag og veðurmælingar, sjávarútveg, skógrækt, tungumálið og ólíkar rannsóknaraðferðir. Eftir tíma þeirra hér á Ísafirði dreifast nemendurnir vítt og breytt um landið þar sem þau framkvæma 6 vikna rannsóknarverkefni – þó sumir kjósi þó að gera það á Ísafirði.

Hópar grunnnema frá SIT koma að jafnaði til Ísafjarðar tvisvar á ári, í febrúar/mars og svo að hausti í ágúst/september. Það er afar gaman og gefandi að taka á móti SIT nemum sem gestafjölskylda og hefur starfsfólk HV iðulega boðið nemum til sín, en við erum þó alltaf að leita að fleiri fjölskyldum á lista og hvetjum ykkur til að hafa samband ef þið hafið áhuga á að vera gestafjölskyldur.

SIT Masters Program in Climate Change and Global Sustainability

Annar hópur á vegum SIT kom einnig til okkar í ágúst, en það eru 5 meistaranemar sem dvelja á Stúdentagörðum Háskólaseturs Vestfjarða á Ísafirði, ásamt kennara sínum, þar til um miðjan nóvember og eru afar spennt og áhugasöm um að geta lært af heimamönnum um vistkerfi á Íslandi.

Á þessu misseri sem þau dvelja hér, munu þau læra að rannsaka bæði land og haf, til að skilja hvernig þau eru að breytast í kjölfar hnattrænna loftslagsbreytinga, en einnig hvernig best er að stýra þeim og taka ákvarðanir sem byggjast á raunverulegum sérfræðingum – samfélaginu sjálfu.

Þau hafa einnig áhuga á að kynnast sýn heimamanna á trjárækt á Íslandi og skoða hvernig mismunandi gróðurtegundir hafa áhrif á næringarefni í jarðvegi sem og líffræðilega fjölbreytni svæðisins. Nemarnir heimsóttu á dögunum nokkra skógarbændur á svæðinu og fengu m.a. að taka þátt í að planta trjám með Úlfi Þór Úlfarssyni.

Einnig munu nemendur nota ýmsar aðferðir úr hafvísindum og læra hvernig efnafræði sjávar er að breytast vegna hnattrænna loftslagsbreytinga. Þau munu hitta sérfræðinga hér á Íslandi til að fræðast um hvernig breytingar á efnafræði og hitastigi sjávar hafa áhrif á fiskgengd og tegundasamsetningu á íslenskum hafsvæðum. Auk þess munu þau heimsækja fjölda vatnsaflsvirkjana á svæðinu – bæði stórar og smærri – og læra um orkutækni, áskoranir og sjónarhorn heimamanna varðandi orkumál á Vestfjörðum.