Dagana 16. til 27. júní stóð Háskólasetur Vestfjarða (HV) í fyrsta sinn fyrir sumarnámskeiði undir heitinu Summer Conference Iceland og tók á móti 16 nemendum frá þýska háskólanum FOM Hochschule für Oekonomie & Management. Námskeiðið var samstarfsverkefni HV og FOM-háskólans, þar sem bóklegt nám var fléttað saman við vettvangsferðir þar sem nemendur kynntust vestfirsku samfélagi og náttúru.
Í fyrstu vikunni sátu nemendurnir námskeið um stafræna þróun sem kennt var af Prof. Dirk Stein frá FOM sem ferðaðist sérstaklega til Ísafjarðar til að kenna námskeiðið. Einnig fengu þau kynningu á starfsemi HV frá forstöðumanni þess, Peter Weiss, sem leiddi hópinn í gönguferð um Ísafjörð og fræddi þau um bæinn og Vestfirði almennt.
Á föstudeginum var farið í heimsókn í fiskvinnsluna Jakob Valgeir, Sjóminjasafnið á Ósvör og upp á útsýnispallinn á Bolafjalli. Í þessum vettvangsferðum fékk hópurinn innsýn í atvinnulíf og umhverfi svæðisins. Um helgina gafst svo tími til að slaka á og njóta náttúrunnar, meðal annars með því að skoða fossa, fara á hestbak og í heitar laugar.
Seinni vikuna snerist námið um sjálfbæra forystu og var það kennt af Dr. Ketli Berg, lektori við Háskólann í Reykjavík, en hann ólst einmitt upp á Vestfjörðum. Þann 24. júní heimsótti hópurinn líftæknifyrirtækið Kerecis og fékk fræðslu um það hvernig fyrirtækið tileinkar sér sjálfbærni.
Lokadagurinn á sumarnámskeiðinu var haldinn á Þingeyri þar sem nemendur tóku þátt í hlutverkaleik sem byggði á íslenska kvótakerfinu og kynntu lokaverkefni sín. Að því loknu bauð Ketill hópnum heim til sín og eldaði fiskisúpu fyrir gestina. Námskeiðinu lauk við fossinn Dynjanda þar sem þátttakendur fengu afhent viðurkenningarskjöl. HV er ánægt með þetta samstarf við FOM-háskólann og vonast til að taka á móti fleiri nemendum í framtíðinni.
Myndir frá sumarnámskeiðinu: