Strandhreinsun

Sumardaginn fyrsta fóru nemendur í námskeiðinu Mengun á strandsvæðum Norðurheimskautsins í strandhreinsunarferð, ekki síst í tengslum við Dag jarðar sem var 22. apríl. Ferðin var farin í samstarfi við Menntaskólann á Ísafirði, þ.e. nemendur Háskólaseturs skipulögðu verkefnið og menntskælingarnir tóku þátt og skiluðu af sér verkefni sem metið er til einkunnar í MÍ.

Unga fólkið lét heldur betur hendur standa fram úr ermum en fyrst var ekið út í Bolungarvík og tínt rusl á afmörkuðu svæði í fjörunni. Því næst var ekið til baka á Ísafjörð og tínt rusl á ströndinni við Fjarðarstræti. Ruslið sem safnaðist var flokkað og skráð samviskusamlega og munu nemendurnir fara yfir niðurstöðurnar í verkefnavinnunni.

Vel viðraði á hópinn, enda sumarið komið, og var því mikil stemning og kapp í fólki. Þá fylgdist forvitinn selur með hreinsunarstarfinu, eflaust feginn því að losna við eitthvað af ruslinu.

Sameiginleg kaffipása var haldin í Háskólsetrinu svo menntskælingum gafst færi á að skoða og kynna sér aðstöðuna hér og virtust nokkuð hrifin, ekki síst af sérhæfða bókasafninu sem er eitt það minnsta á landinu.