Opinber stefnumótun – frá hugmynd til að gerða

Námskeið í opinberri stefnumótun hófst í þessari viku hjá okkur í HV.

Námskeiðið veitir nemendum innsýn í það ferli hvernig hugmynd eða þörf fyrir opinbert inngrip getur orðið að stefnu í framkvæmd. Stefnumótunarferlið er skoðað með áherslu á kenningar um málefnasetningu (e. agenda-setting), þ.e. hvernig mál kemst á dagskrá stjórnvalda og hvað skýrir hvers vegna mál nær stundum fram að ganga en stundum ekki. Einnig er fjallað um ólíka þætti stefnumótunarferlisins: skilgreiningu vandamála, málefnasetningu, mótun stefnu, framkvæmd og ábyrgðarskyldu. Litið er til ólíkra sjónarmiða og hagsmuna er varða skilvirkni, jöfnuð, frelsi einstaklingsins og félagslega samheldni þegar markmið opinberrar stefnumótunar eru skilgreind. Nemendur öðlast innsýn í þær aðferðir sem stjórnvöld beita til að ná markmiðum sínum með því að fjalla um hin ýmsu stjórntæki.

Kennari námskeiðsins er Kirsten Gow, sem er rannsakandi sem sérhæfir sig í málefnum eyja og dreifbýlissvæða. Doktorsverkefni hennar, sem fjallar um dreifingu og endurkomu innflytjenda á skoskum eyjum, byggir á starfsferli hennar, þar sem hún hefur stutt grasrótarverkefni í samfélögum víðs vegar um dreifbýli og eyjasvæði Skotlands. Hún hefur áður starfað sem leiðbeinandi fyrir lokaverkefni í Sjávarbyggðafræði, en kemur nú í fyrsta skipti sem kennari hjá HV.

Á starfsferlinum hefur Kirsten unnið með samfélögum og stjórnvöldum á öllum stjórnsýslustigum að því að móta, hanna og meta stefnu. Í doktorsnámi hennar fólst þetta meðal annars í að þróa Flokkunarkerfi Gow fyrir skoskar eyjar og Opinbert flokkunarkerfi skoskra eyja hjá skosku ríkisstjórninni, til að hjálpa stefnumótendum og öðrum að skilja betur samhengi eyjanna og möguleg áhrif vinnu sinnar. Í stærra samhengi hefur Kirsten gegnt virku hlutverki í að samhæfa viðbrögð heimamanna við svæðis- og landsstefnumótunartillögum; unnið með samtökum á borð við Rural Housing Scotland og Scottish Islands Federation til að tala máli eyja- og dreifbýlissamfélaga; veitt stjórnvöldum upplýsingar um stefnumál sem varða dreifbýli og eyjar; og setið í stefnumótunarnefnd European Small Islands Federation. Kirsten er einn af samstjórnendum netsins New Voices in Island Studies.

Frekari upplýsingar um námskeiðið má finna hér.

Öll meistaranámskeið sem kennd eru við Háskólasetur eru opin gestanemum, skiptinemum og fólki úr atvinnulífinu og eru hluti af tveimur alþjóðlegum þverfaglegum meistaranámsleiðum, haf- og strandsvæðastjórnun, og sjávarbyggðarfræði.