Nýnemadagar 2025

Í dag og á morgun eru haldnir nýnemadagar hjá Háskólasetri Vestfjarða, þar sem tekið er á móti fjölbreyttum hópi meistaranema og nýtt skólaár sett. Hópurinn samanstendur af nemendum frá mörgum löndum og með ólíkan bakgrunn. Á mánudaginn hefja nemarnir svo nám í námsleiðunum tveimur: Haf- og Strandsvæðastjórnun og Sjávarbyggðafræði. Einnig voru nemendur í meistaranámi í “Climate Change and Global Sustainability” viðstaddir en þeir dvelja hjá Háskólasetri í eina önn í gegnum bandaríska SIT háskólann í Vermont.

Dr. Peter Weiss, fráfarandi forstöðumaður, bauð nemendur velkomna í morgun, en svo tók við keflinu nýráðinn forstöðumaður, Dr. Catherine Chambers, sem tekur við stöðunni 1. apríl næstkomandi, og sagði þeim frá sögu Háskólaseturs. Astrid Fehling kennslustjóri fór yfir praktísk atriði og síðan fengu nemendurnir að kynnast hvoru öðru í formi leikja, sem Dr. Brack Hale fagstjóri stýrði.

Eftir vel heppnaða leiki úti í porti Vestrahúss í brakandi sumarblíðu, var haldið inn að borða hádegisverð, sem að þessu sinni voru gómsætar pizzur.

Að hádegisverði loknum fóru nemendur í göngu um húsið og kynntust hinum fjölmörgu stofnunum sem eru í Vestrahúsi, ásamt því að fá upplýsingar um ýmis praktísk atriði, eins og bókasafnið og líf og nám í fjölmenningarlegu samfélagi. Eftir spjall við starfsfólk og hvert annað, þar sem kostur gafst á að kynnast betur, komu núverandi og fyrrverandi nemendur við Háskólasetur ásamt fulltrúum nemendafélags og gáfu nýnemum mikilvægar upplýsingar um nemendalífið á Ísafirði.

Í lok dags var farið í gönguferð um bæinn þar sem nemendur fengu leiðsögn um helstu staði, sögu og menningu Ísafjarðar. Gönguferðin endaði svo á Dokkunni, brugghúsi, þar sem var óformlegur hittingur fyrir þá sem það vildu.

Á morgun verður áframhald á nýnemadögum þar sem nemendur fá frekari kynningu á náminu hjá fagstjórunum tveimur, Dr. Brack Hale og Morgan Green, og kennslustjóra Háskólaseturs, Astrid Fehling.