Námskeið um stjórnskipulag á norðurslóðum

Í dag hófst kennsla námskeiðsins „Stjórnskipulag á norðurslóðum“ hér í Háskólasetri Vestfjarða.

Norðurskautið er berskjaldað fyrir áhrifum loftslagsbreytinga sem leiðir af sér að mennirnir eiga auðveldara með að stunda arðrán á auðlindum þess. Stjórnun slíks svæðis felur í sér margar áskoranir og tækifæri til samstarfs milli norðurskautsríkjanna, sem bera ábyrgð á skilvirkri stjórn í sinni landhelgi, og annarra þjóða sem eiga hagsmuna að gæta varðandi það að auka aðgang að auðlindum norðurslóða og alþjóðasamfélaginu almennt. Núverandi og hugsanleg framtíðarstjórn norðurslóðaþjóða og alþjóðlegt samstarf sem komið hefur verið á til að stuðla að samhæfingu þessara þjóða eru rædd og greind á námskeiðinu. Hugsanleg framtíðarumgjörð fyrir stjórnun norðurslóða er einnig metin og sérstakt hlutverk frumbyggja er undirstrikað. Nemendur munu meta áhrif staðbundinna stjórnmálaatburða samtímans á samvinnu á Norðurskautinu. Þátttaka í Arctic Circle ráðstefnunni í Reykjavík, sem er mikilvægur alþjóðlegur vettvangur með áherslu á stefnu og stjórnarhætti norðurslóða, er órjúfanlegur þáttur í þessu námskeiði og gefur nemendum einstakt tækifæri til að vera hluti af mikilvægum, faglegum umræðum um margar þær áskoranir sem svæðið stendur frammi fyrir, og hugsanlegar lausnir. Þátttaka í ráðstefnunni gefur nemendum einnig tækifæri til að hittast og læra meira um þessi mál frá lykilleiðtogum norðurslóðaþjóða sem og öðrum aðilum í stjórnunar- og stefnumótunarsamfélagi norðurslóða.

Að námskeiðinu loknu skal nemandi vera fær um að rifja upp þróun stjórnskipulags á norðurheimskautssvæðinu til dagsins í dag, sem og það stjórnskipulag sem er við lýði í dag og hafa sýnt fram á færni til að meta núverandi stjórnskipulag. Nemandi skal jafnframt vera fær um að þekkja og meta þær áskoranir sem þarf að yfirstíga til að ná árangursríku samstarfi á svæðinu og mun hafa þróað mikilvæga tengslanetshæfileika og lært að taka þátt á alþjóðlegum ráðstefnum og meta ráðstefnuerindi munnlega fyrir hóp af jafningjum og tengja í leiðinni umræðuefni ráðstefnunnar við stjórnun norðurheimskautsins.

Kennari námskeiðsins er Dr. Romain Francois R Chuffart, sem gegnir stöðu formanns og forstjóra Arctic Institute – Center for Circumpolar Security Studies (TAI), opins hugmyndabanka fyrir stefnumótun á norðurslóðum. Auk þess hefur hann gegnt stöðu dósents í heimskautarétti við Lagadeild Háskólans á Akureyri. Romain lauk meistaragráðu sinni í heimskautarétti á Íslandi og doktorsgráðu í lögfræði við Durham-háskóla.

Við minnum á að öll meistaranámskeið sem kennd eru við Háskólasetur Vestfjarða eru opin þátttakendum jafnt frá háskólum sem atvinnulífi. Hafir þú áhuga á að sækja stök námskeið hjá Háskólasetri getur þú kynnt þér kennsluskrána okkar og sent inn umsókn um stakt námskeið.