Í síðustu viku hófst námskeiðið Eðlisræn ferli strandarinnar við Háskólasetur Vestfjarða.
Námskeiðið fjallar um haf- og strandumhverfi með áherslu á tengsl eðlisrænna ferla og stjórnunarstefna. Eðlisræna umhverfið, þ.e. öldur, strauma, setflutning, strendur, rof og upphleðsluferla, sem og mögulegar afleiðingar hækkandi sjávarstöðu og hnattrænnar hlýnunar, er tengt saman við mannlega þætti, þ.e. nýtingu, strandvarnir, mengun (t.d. viðvarandi úrgang í hafi) og nýtingu auðlinda.
Námskeiðið veitir nemendum skilning á afleiðingum mannlegra áhrifa á haf- og strandumhverfi, auk kynningar á megindlegum aðferðum til gagnavinnslu, mælinga og framsetningar gagna á sviði haf- og strandsvæðastjórnunar.
Kennari námskeiðsins er Dr. Jana Cox, aðstoðarprófessor við Háskólann í Utrecht í Hollandi, á sviði jarðvísinda, jarðfræði, strandkraftafræði, árakerfa og áhrifa hnattrænna breytinga á jarðmótun (Global Change Geomorphology). Hún lauk doktorsprófi sínu frá sama háskóla árið 2022, þar sem hún vann að verkefninu NKWK Rivers2Morrow, sem fjallaði um viðbrögð neðri hluta Rínar- og Maas-ánna við loftslagsbreytingum og hækkandi sjávarstöðu. Eftir það starfaði hún sem rannsóknardoktor við Háskólann í Utrecht í tengslum við Rivers2Morrow-verkefnið, þar sem hún rannsakaði setflutning í efri hluta árkerfa og minnkandi setflutning til árósa yfir tíma.
Lestu meira um hana og rannsóknir hennar hér.
Frekari upplýsingar um námskeiðið má finna hér.
Öll meistaranámskeið sem kennd eru við Háskólasetur eru opin gestanemum, skiptinemum og fólki úr atvinnulífinu og eru hluti af tveimur alþjóðlegum þverfaglegum meistaranámsleiðum, haf- og strandsvæðastjórnun, og sjávarbyggðarfræði.