Námskeið í fræðilegum skrifum hefst í dag

Dr. Brack Hale, fagstjóri meistaranáms í haf- og strandsvæðastjórnun
Dr. Brack Hale, fagstjóri meistaranáms í haf- og strandsvæðastjórnun

Í dag hefst námskeið í fræðilegum skrifum hjá Háskólasetri Vestfjarða. Á námskeiðinu, sem kennt er sem röð málstofa yfir önnina, eru nemendur kynntir fyrir fræðilegu starfi á framhaldsstigi. Viðfangsefnin eru fræðileg skrif, ritrýni, ritun útdrátta, greining fræðigreina, gagnrýnin hugsun og sjónræn framsetning gagna. Markmiðið er m.a. að í lok námskeiðs verði nemendur kunnugir almennri framkvæmd fræðilegra skrifa, geti metið útgefnar rannsóknir á gagnrýninn hátt og fléttað saman við sín eigin verk á haganlegan máta, auk þess að skilja aðalatriði metnaðarfullra rannsóknarskrifa og geta varpað fram tilhlýðilegum rannsóknarspurningum.

Kennari námskeiðsins er Dr. Brack Hale, fagstjóri meistaranáms í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða. Brack er með doktorsgráðu (Ph.D.) í auðlindastjórnun frá University of Wisconsin-Madison, meistaragráðu (M.E.M.) í vatnafræðum frá Duke University, og BA-próf í samanburðarsvæðafræðum frá sama háskóla. Áður en hann gekk til liðs við Háskólasetur Vestfjarða var hann prófessor í líffræði og umhverfisvísindum og sviðsstjóri umhverfis-, stærðfræði-, sálfræði- og heilbrigðissviðs við Franklin háskóla í Sviss. Hann gegndi einnig stöðu fræðslustjóra (Dean of Academic Affairs) í eina önn áður en hann kom til HV.

Dr. Hale hefur víðtæka reynslu af forystu og stjórnun, þróun námskrár, kennslu og gæðamati. Hann hefur tekið þátt í margvíslegu samstarfi við HV frá árinu 2014, meðal annars með því að koma með nemendahópa, og dvaldi jafnframt hér í rannsóknaleyfi árið 2017.

Við minnum á að öll meistaranámskeið sem kennd eru við Háskólasetur Vestfjarða eru opin þátttakendum jafnt frá háskólum sem atvinnulífi. Hafir þú áhuga á að sækja stök námskeið hjá Háskólasetri getur þú kynnt þér kennsluskrána okkar og sent inn umsókn um stakt námskeið.