Líf og fjör á íslenskunámskeiðum

Hin árlegu íslenskunámskeið Háskólaseturs Vestfjarða eru nú í fullum gangi og í ár sækja rúmlega 70 þátttakendur frá öllum heimshornum námskeiðin. 

Sumir sækja fleiri en eitt námskeið og aðrir snúa aftur ár eftir ár. Þátttakendur eru meðal annars fólk úr atvinnulífinu, skiptinemar, nýbúar, áhugafólk um tungumál, fyrrverandi íbúar sem vilja viðhalda íslenskukunnáttu sinni og nemendur bæði við Háskólasetur og íslenska háskóla.

Námskeiðin eru 1–3 vikur að lengd og eru skipt eftir getustigi samkvæmt evrópska tungumálarammanum (CEFR): A1/A2, B1 og B2. Kennsla fer fram á morgnana en síðdegis eru valnámskeið þar sem blandað er saman menningu og tungumáli. Þar má nefna pönnukökubakstur, bingó, málfræðileiki, framburðaræfingar, kór og heimsóknir á söfn, stofnanir og til fyrirtækja.

Íslenskunemarnir og nemar í vettvangsskóla Háskólaseturs, sjá til þess að stúdentagarðarnir eru fullir af lífi yfir sumartímann.