Háskólasetur Vestfjarða hlaut á dögunum styrk að fjárhæð kr. 924.222,- úr Loftslags- og orkusjóði, í flokknum „Orkuskipti í rekstri eða orkusparnaður“ en verkefnið snýr að uppsetningu sjálfbærs orkubúnaðar við Háskólasetur Vestfjarða.
Til úthlutunar úr Loftslags- og orkusjóði árið 2025 voru 1.308 milljónir króna og fengu samtals 109 verkefni styrk í úthlutun ársins, en umsóknir voru alls um 300 talsins. Um er að ræða verkefni sem stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda eða fela í sér nýsköpun og innleiðingu nýrrar tækni á sviði umhverfis-, orku- og loftslagsmála.
Háskólasetur Vestfjarða hefur í rúma tvo áratugi sinnt mikilvægri menntun og rannsóknum á sviðum er varða sjálfbæra þróun og umhverfis- og auðlindastjórnun. Þar er lögð áhersla á alþjóðlega þátttöku og nýsköpun í menntun, með sérstakri áherslu á áskoranir norðurslóða.
Starfsemi HV fer að mestu fram í kennslustofu- og skrifstofurýmum við Suðurgötu á Ísafirði. Til að styðja við stefnu setursins í sjálfbærni og minnka vistspor daglegrar starfsemi, hefur verið ákveðið að ráðast í uppsetningu endurnýjanlegra orkugjafa í formi sólarsella og lítillar vindmyllu. Markmiðið er að draga úr raforkukaupum og auka sjálfbærni orkunotkunar setursins með sýnilegum og fræðandi hætti.
Verkefnið fellur vel að markmiðum Loftslags- og orkusjóðs um að styðja við innleiðingu vistvænnar tækni og orkuskipta, auk þess sem það hefur verulegt sýnigildi og fræðslugildi fyrir nemendur, kennara og gesti setursins.
Markmið verkefnisins er að koma upp sjálfbæru raforkukerfi við Háskólasetur Vestfjarða með uppsetningu sólarsella og vindmyllu sem muni framleiða rafmagn fyrir daglega starfsemi kennslurýma og skrifstofa.
Helstu verkþættir:
Markmiðið með verkefninu er að minnka raforkukaup HV og gera rekstur kennslustofa sjálfbæran að hluta til, og styðja þannig við kolefnishlutleysi. Auk þess mun verkefnið skapa vettvang til náms, rannsókna og fræðslu tengt endurnýjanlegri orku og vera fyrirmynd annarra stofnana í orkuskiptum, en gert er ráð fyrir að orkuþörf kennslurýmisins sé á bilinu 7–8 kWh á dag og að orkukerfið muni anna stórum hluta þeirrar þörf yfir árið.
Háskólasetur Vestfjarða þakkar Loftslags- og orkusjóði fyrir styrkveitinguna.