Gíslataka á morgun!

Dagskrá átaksins Gefum íslensku séns er enn fullum gangi og nú á þriðjudag er komið að Gíslatöku í Haukadal, en það er viðburður í samstarfi við Kómedíuleikhúsið. Þá verður farið í stutta og auðvelda göngu um slóðir Gísla Súrssonar í Haukadal í Dýrafirði. Hún endar í Kómedíuleikhúsinu, minnsta leikhúsi á Íslandi, þar sem boðið er upp á hressingu og leiksýninguna um Gísla Súrsson, eitt mest sýnda leikrit allra tíma.

Gangan og leiksýningin á þriðjudag verða sérstaklega aðlöguð þeim sem enn eru að læra íslensku, með höfuðmarkmið Gefum íslensku séns að leiðarljósi.

Viðburðurinn er ókeypis en skráning fer fram gegnum netfangið islenska@uw.is. Lagt verður af stað á bílum frá Háskólasetri Vestfjarða klukkan 13.

Öll velkomin!