Gefum íslensku séns!

Átakið Íslenskuvænt samfélag - við erum öll almannakennarar hefur hlotið styrk úr Þróunarsjóði innflytjendamála. Þar með verður hægt að halda áfram með það góða starf sem unnið var á síðasta ári og bæta um betur í ár, með aukinni og þéttari dagskrá. Sú breyting hefur þó orðið að valið hefur verið nýtt slagorð: Gefum íslensku séns!

Að sögn Ólafs Guðsteins Kristjánssonar, umsjónarmanns íslenskunáms við Háskólasetur Vestfjarða, er nýju nafngiftinni ætlað að brýna enn betur fyrir fólki að gefa öllum tækifæri til að nota þá íslensku sem hentar hverju sinni, svo og að gefa fólki sem lærir málið tíma sinn og athygli án þess að vera með umvandanir.

"Markmiðið er því að stuðla að auknum möguleikum fólks í notkun íslensku á sem víðtækastan og fjölbreyttastan hátt, að þeir sem læra málið, sama hvar á vegi þeir eru staddir, fái stuðning og skilning þeirra sem hafa vald á íslensku. Átakið snýst því mikið til um vitundarvakningu, hvað felst í því að læra málið, hvernig við sem samfélag getum stuðlað að framförum fólks í íslensku, að fólk hafi tækifæri til að nota málið við sem flest tækifæri."

Gefum íslensku séns! - íslenskuvænt samfélag

Að átakinu standa Háskólasetur Vestfjarða, Fræðslumiðstöð Vestfjarða og Ísafjarðarbær. Það hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir skemmtilega og árangursríka nálgun við íslenskunám og hlaut viðurkenningu frá Íslenskri málnefnd síðasta haust. Samhliða átakinu heldur Háskólasetur Vestfjarða áfram að sinna íslenskukennslu fyrir skiptinema og aðra sem hafa áhuga á að læra íslensku í Ísafjarðarbæ.

Og nú er óskað eftir þátttöku fleiri íbúa. "Í fyrra um svipað leyti hittist hópur fólks og vann að hugmyndavinnu og skipulagningu þeirra viðburða sem áttu sér stað. Í ár verður einnig hafður sá háttur og er hér með óskað eftir áhugasömum til að koma að viðburðadagatali," segir Ólafur.

Öllum er velkomið að ganga til liðs við hópinn. Hafir þú áhuga á að vinna íslensku brautargengi og stuðla að íslenskuvænu samfélagi settu þig þá endilega í samband í gegnum islenska(hjá)uw.is. Verkefnið verður án efa gefandi og skemmtilegt. Nánari upplýsingar um verkefnið má og fá símleiðis með því að tala við Ólaf Guðstein í síma 8920799.