Fræðadvöl í Grímshúsi

Sarah Hopkins
Sarah Hopkins

Eitt af þeim skemmtilegu verkefnum sem Háskólasetur Vestfjarða tekur þátt í, er verkefni um fræðadvöl í Grímshúsi á Ísafirði, sem var hleypt af stokkunum á ráðstefnu í Háskólasetri Vestfjarða í nóvember árið 2022 og árið 2023 komu fyrstu gestirnir í Grímshús. Fræðadvölin er samvinnuverkefni Stofnunar Ólafs Ragnars Grímssonar, Háskólaseturs Vestfjarða, Háskóla Íslands, Háskólanna í Reykjavík og á Akureyri, Kerecis og Hringborðs Norðurslóða. Gestirnir í Grímshúsi setja mark sitt á lífið í HV, en árlega koma allt að fimm fræðimenn til dvalar í Grímshúsi. Gestirnir hafa aðgang að vinnuaðstöðu í HV og langflestir þeirra taka þátt í Vísindaporti, hádegisfyrirlestrum sem haldnir eru alla föstudaga.

Bæði erlendir og íslenskir vísindamenn, sérfræðingar, fræðimenn, rithöfundar og fleiri geta sótt um dvöl í 2-6 vikur í húsinu að Túngötu 3 á Ísafirði, sem var æskuheimili fyrrverandi forseta, Ólafs Ragnars Grímssonar, um tíma. Þeir gestir sem koma til dvalar í Grímshúsi eru með afar fjölbreyttan bakgrunn og vinna að verkefnum um allt milli himins og jarðar, sem þau kynna svo fyrir nemendum, starfsfólki og öðrum gestum í Vísindaporti.

Að segja að fræðimenn í Grímshúsi vinni að verkefnum um „allt milli himins og jarðar“ er svo sannarlega rétt, því nú í janúar dvelur þar Sarah Hopkins, frá Huntsville í Alabama, sem er einmitt geimverkfræðingur hjá Amentum við Marshall Space Flight Center NASA, þar sem hún vinnur að þróun flughugbúnaðar fyrir SLS-eldflaugina (Space Launch System) í Artemis-áætluninni. Sarah er þó aðeins geimverkfræðingur fyrri part dagsins, en á kvöldin er hún vísindaskáldsagnahöfundur.

Rannsóknarverkefni hennar á vegum Grímsson-styrksins á Vestfjörðum á Íslandi tengist bók hennar, Beyond the Frozen Island, sem gerist í afskekktu norðurslóðaumhverfi sem minnir mjög á Ísafjörð. Bókin er að stórum hluta innblásin af ást hennar á landi og menningu Íslands, sem og af starfi hennar hjá NASA.

Ísland er fullkomin blanda af hrárri fegurð norðurslóða og hörðu, afskekktu veðurfari og er talið einn af fáum stöðum á jörðinni sem líkjast hvað mest landslagi annarra reikistjarna, með mikilli eldvirkni og tungllíkum basalthellum. Margir Apollo-geimfarar hlutu þjálfun hér á landi áður en þeir gengu á tunglinu, og fjölmörg könnunarökutæki hafa verið prófuð hér áður en þau lentu á Mars. Auk þessa sæki ég innblástur í norðurljósin, nærri 24 klukkustunda myrkur og hvassviðrisbylji. Með því að flétta saman sögur sem sameina ást, missi og ævintýraþrá þvert yfir sólkerfið dreg ég lesandann inn í stórbrotna frásögn af mögulegri framtíð geimkönnunar.

Tengsl Söruh við Ísland eru þó meira en aðeins Grímsson-styrkurinn. Á tíunda áratugnum bjuggu foreldrar hennar í Keflavík á meðan faðir hennar starfaði í herstöð Bandaríkjamanna í Keflavík. Hún ólst upp við að heyra margar sögur af „landi elds og ísa“, og ferðalag hennar með fjölskyldunni um allt landið árið 2017, þar sem þau könnuðu eyjuna í heild sinni, jók enn frekar áhuga hennar á einstöku landslagi og menningu Íslands.

Sarah verður með hádegisfyrirlestur í næstu viku, en þó ekki á föstudegi eins og Vísindaport er venjulega. Hún ætlar að segja okkur frá vinnu sinni við Artemis verkefnið og jafnframt frá skáldsögunni sem hún er með í smíðum. Við munum auglýsa nákvæmari tímasetningu á vefsíðu og samfélagsmiðlum HV eftir helgina.