Fjarprófatíð að hefjast í Háskólasetri Vestfjarða

Á mánudaginn, 24. nóvember, hefjast jólapróf hjá háskólum landsins og þá munu vestfirskir fjarnemar leggja leið sína í Háskólasetrið til að taka próf.

Allir sem eru í háskólanámi eiga þess kost að taka prófin sín hjá HV, sér að kostnaðarlausu. Það eina sem fjarnemar þurfa að gera er að skrá sig í fjarpróf hjá sínum skóla og hafa svo samband við verkefnastjóra HV og láta vita af sér. Misjafnt er milli skóla hvernig nemendur fara að því að skrá sig í fjarpróf, svo það er best að hafa samband við nemendaskrá síns skóla og fá leiðbeiningar.

Vestfirskir háskólanemar geta þó ekki aðeins tekið prófin sín á Ísafirði, því verkefnastjóri HV heldur jafnframt utan um fjarpróf sem nemendur vilja taka á Hólmavík og á Patreksfirði, í samvinnu við Fræðslumiðstöð Vestfjarða og Strandabyggð.

Við bendum fjarnemum á að mæta með allan þann tæknibúnað sem þeir þurfa til próftöku, t.d. tölvu, heyrnartól fyrir hlustunarpróf, og reiknivélar, því slíkt er ekki hægt að fá að láni á prófstöðum. Við bjóðum hins vegar upp á internet og þjónustu með bros á vör, í þeirri von að það létti örlítið buguðum háskólanemum lífið í prófatíðinni. Jafnframt bendum við nemendum á að allar óskir um sérþjónustu þurfa að koma í gegn um viðkomandi háskóla (ekki beint frá nemendum) en við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að koma til móts við þær séróskir.

Prófin á haustönn verða haldin alla daga frá 24. nóvember til 16. desember, yfirleitt bæði fyrir og eftir hádegi, en undanfarin ár hafa að jafnaði 80 einstaklingar mætt á Ísafjörð, Hólmavík og Patreksfjörð og tekið um og yfir 200 próf. Það er því óhætt að segja að nóg sé að gera.

Við biðjum gesti og gangandi að ganga hægt um húsakynni Háskólaseturs Vestfjarða þessa daga, til að raska ekki ró próftaka.