Einurð og seigla í fjarnámi á Vestfjörðum

Í tilefni þess að í ár eru 25 ár liðin frá því að fjarnám við Háskólann á Akureyri hófst á Ísafirði, var haldið málþing í Háskólasetri síðastliðinn föstudag. Fundarstjóri var Peter Weiss en erindrekar voru fyrst og fremst fyrrverandi og núverandi fjarnemar, kennarar og stjórnendur við HA.

Talsverður fjöldi hlýddi á, bæði á staðnum og gegnum streymi sem var mjög við hæfi sem og tæknilegir örðugleikar við upphaf málþingsins svo viðstaddir fengu svo að segja stemninguna frá 1998 beint í æð.

Halldór Halldórsson, fyrrverandi bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, fór stuttlega yfir skjótan aðdraganda þess að fjarnáminu var komið á laggirnar, en hugmyndin kviknaði í vinnuheimsókn til Skotlands, þar sem University of the Highlands and Islands (Háskóli skosku hálandanna og eyjanna) hafði náð miklum árangri í að ná til nemenda í afskekktum byggðum og því þótti tilvalið að taka Skotana sér til fyrirmyndar og færa háskólanám til Vestfirðinga, og byrja á hjúkrunarfræði.

Dr. Sigrún Sigurðardóttir, hjúkrunarfræðingur og dósent við HA, Eyrún Sif Ingólfsdóttir, hjúkrunarfræðingur úr hópi fyrsta fjarnemahópsins, og Elsa Friðfinnsdóttir, forstöðumaður heilbrigðisdeildar HA 1997-1999, lýstu fyrstu árunum þegar nettenging var mun lakari en í dag, fyrirlestrar ekki teknir upp eða vistaðir og notast við faxtæki til að deila út textablöðum og verkefnum. Lýsingar þeirra báru vott um aðdáunarverða einurð og seiglu nemanna, sem gerðu sjálfsagðar kröfur um að fá eins góða kennslu og staðnemar, sýndu mikla samstöðu og lögðu ótrúlega mikið á sig til að halda í við hópinn á Akureyri.

Þá sagði og sýndi Helena Sigurðardóttir, kennsluráðgjafi, frá starfi og áskorunum Kennslumiðstöðvar HA við þróun námsefnis sem hentar í heimabyggð.

Rektor Háskólans á Akureyri, Dr. Eyjólfur Guðmundsson, hóf málþingið á ný eftir hádegishlé og nefndi m.a. fordóma gagnvart fjarnámi meðal embættisfólks, og vantrú á gæðum þess. Þá sögðu Martha Lilja Olsen, Ísfirðingur og skrifstofustjóri rektorsskrifstofu HA, og Anna Sigríður Ólafsdóttir, fyrrverandi fjarnemi við HA, frá reynslu sinni af náminu, tækifærunum sem það hefur veitt þeim og hvert það hefur leitt þær í lífinu.

Útskriftarfjarneminn Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir sagði frá lokaverkefni sínu í meistaranámi í Heilbrigðisvísindum við HA, en það fólst í rannsókn á upplifun heilbrigðisstarfsfólks á Vestfjörðum af snjóflóðunum í Súðavík 1995. Þá sagði Harpa Lind Krisjánsdóttir, iðjuþjálfi og fyrrverandi MSc fjarnemi í heilbrigðisvísindum við HA, frá starfsþróun sinni en hún vinnur við starfsendurhæfingu á Vestfjörðum í dag.

Næst sagði Dr. Gísli Kort Kristjánsson, deildarforseti hjúkrunarfræðideildar HA, frá nýju meistaranámi í geðhjúkrunarfræði við HA, hvernig náminu er hagað og áskoranir í dreifbýli leystar, m.a. með því að þjálfa áhugaleikara til að aðstoða nemendur við þjálfun.

Loks lýsti Hörður Sævaldsson, lektor við Háskólann á Akureyri, því hvernig kennslustofur og námsefni hafa verið aðlöguð að fjarnámi, þannig að fjarnemum finnist þeir nánast vera staddir í skólastofunni og hluti af nemendahópnum, og auðveldara sé fyrir kennara að leiðbeina og sýnikenna nemendum hvort sem þeir séu staddir í stofunni eða allt annars staðar.

Dr. Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, lauk málþinginu svo með stuttu ávarpi og reifaði m.a. hversu mikilvæg fjartækni er stofnuninni og þær kerfislægu takmarkanir sem heilbrigðisstofnanir úti á landi búi við vegna miðstýringar og þröngs lagaramma.