Í dag hefjast formlega tvö, stór rannsóknarverkefni sem Háskólasetur Vestfjarða hlaut styrki fyrir á liðnum vetri. Bæði verkefnin eru styrkt af NordForsk Sustainable Development of the Arctic sjóðnum. Dr. Matthias Kokorsch, sem fer í leyfi frá störfum fagstjóra meistaranáms í Sjávarbyggðafræði, mun leiða verkefnin sem rannsóknar- og verkefnastjóri, en hann gekk til liðs við alþjóðlegt samstarfsverkefni sem meðumsækjandi og tryggði styrkina fyrir hönd HV í harðri samkeppni. Af um 200 umsóknum sem bárust NordForsk fengu aðeins níu verkefni styrk, þar af tvö með þátttöku HV. NordForsk hefur varið meira en 330 milljónum norskra króna í þessi níu verkefni sem hluta af stórri fjárfestingu á Norðurslóðum. Matthias mun vinna í nánu samstarfi við Dr. Jóhönnu Gísladóttur frá LBHÍ, sem tekur við 25% stöðu rannsóknarmanns hjá HV, auk fleiri alþjóðlegra samstarfsaðila.
Fyrra rannsóknarverkefnið er „LostToClimate“, (Addressing Unavoidable Non-Economic Losses to Climate-Induced Events for Communities in the Arctic), sem er fjögurra ára rannsóknarverkefni sem lýkur árið 2029. Í verkefninu verða rannsökuð óhjákvæmileg tjón, önnur en efnahagsleg, sem samfélög á Norðurslóðum verða fyrir vegna loftslagsbreytinga. Þetta samstarfsverkefni sameinar vísindamenn og samfélög í Finnlandi, Svíþjóð, Noregi, , Færeyjum, Íslandi, Grænlandi, Kanada og Bandaríkjunum, þar á meðal nokkur samfélög frumbyggja, til að skapa nýja þekkingu sem getur stutt við aðlögun í framtíðinni. Í lýsingu á verkefnisins kemur fram að á Norðurslóðum er ein hraðasta hlýnun á jörðinni, sem veldur meðal annars eyðingu á strandsvæðum, bráðnun sífrera, gróðureldum og minnkandi hafís. Þrátt fyrir aðlögunaraðgerðir grafa þessar breytingar undan velferð samfélaga á Norðurslóðum, bæði efnahagslega (t.d. með því að skemma innviði) og óefnahagslega (t.d. með því að valda tjóni á menningararfi og hafa áhrif á andlega heilsu). LostToClimate verkefnið mun nýta fjölbreyttar etnógrafískar aðferðir, þar á meðal listmiðlaðar nálganir, til að virkja samfélög í uppbyggilegu samtali um þær breytingar sem íbúar verða fyrir vegna loftslagsbreytinga. Verkefnið mun einblína á fjórar meginspurningar: að greina hvaða tegundir tjóns samfélög á Norðurslóðum standa frammi fyrir, kanna hvernig þessi samfélög takast á við slíkt tjón í gegnum aðlögunarstefnur, hvernig getum við setja fram þau sönnunargögn sem nauðsynleg eru til að móta réttlát viðbrögð við tjóni og skaða sem eru ekki efnahagslegs eðlis, og meta hvaða aðgerðir samfélög á Norðurslóðum kjósa til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga.
Eitt af því sem Matthias og Jóhanna vilja rannsaka er hvernig muni líta út fyrir bændasamfélög á Íslandi á komandi árum. Sauðfjárbúskapur hefur verið stundaður á Íslandi í meira en þúsund ár. Taktur árstíðanna, sauðfé í afréttum og réttir eru samofin sjálfsmynd þjóðarinnar. En staðan er að breytast, bændur eiga undir högg að sækja og loftslagsbreytingar gætu gert stöðuna enn þyngri. Öfgafullt veður, snjóflóð og skriðuföll ógna ekki aðeins afkomu heldur heilu samfélögunum. Hættan er ekki einungis efnahagsleg; hún er menningarleg og félagsleg. Ef áfram heldur sem horfir, gæti Ísland misst hluta af arfleifð sinni sem ekki er hægt að endurheimta með peningum. Jafnvel þeir sem halda áfram sauðfjárrækt gætu einn daginn þurft að flytja heimili sín eða búfé – tímabundið eða varanlega – til að forðast hættu. Til að skilja þessar áskoranir betur munu Matthias og Jóhanna heimsækja bændur í ólíkum landshlutum. Með viðtölum og vinnustofum munu þau hlusta á reynslu þeirra, kanna framtíðarmöguleika og draga fram hvað raunverulega er í húfi.
Seinna rannsóknarverkefnið er „ARCHAIC“ (Sustainable and Resilient Communities in Remote Settlements in the Arctic in the Age of Climate Change), sem er þriggja ára rannsóknarverkefni sem lýkur árið 2028, og er alþjóðlegt samstarfsverkefni með aðilum frá Noregi, Grænlandi og Danmörku. Meginmarkmið „ARCHAIC“ verkefnisins er að skapa nýja þekkingu um aðlögun að loftslagsbreytingum og viðbrögð við náttúruvá í afskekktum samfélögum á Norðurslóðum, með áherslu á sjálfbærni og seiglu. Verkefnið er fjölþætt og felur m.a. í sér að kortleggja helstu áhættur sem steðja að samfélögum á Norðurslóðum og meta hvernig þau geta brugðist við þeim, að bæta fyrirsjáanleika og viðbragðsáætlanir með þróun og innleiðingu árangursríkra viðvörunarkerfa fyrir náttúruvá og að skoða hvernig samfélög geta undirbúið og framkvæmt flutning í kjölfar aukinnar náttúruvár og loftslagsbreytinga. Jafnframt að styrkja getu samfélaga til að takast á við neyðarástand og lágmarka áhrif náttúruhamfara með markvissum viðbúnaði og að nýta innsýn og lærdóm úr rannsókninni til að styðja við önnur svæði sem glíma við svipaðar áskoranir.
HV, með Matthias og Jóhönnu í fararbroddi, mun leiða rannsóknir á mögulegum brottflutningi samfélaga frá áhættusvæðum. Rannsóknarteymið er þverfaglegt en samfélagslegt öryggi hefur hingað til lítið verið skoðað í samhengi við loftslagsbreytingar, náttúruvá og aðlögun. Reynsla frá heimskautasvæðum mun nýtast víðar á Norðurslóðum og um heim allan.