Þrír nemendur hljóta styrk fyrir lokaverkefni

Þrír nemendur Háskólaseturs Vestfjarða hlutu nýverið styrk frá Hafsjó af Hugmyndum til þess að vinna lokaverkefni sín. Hafsjór af Hugmyndum er nýsköpunarstyrkur til háskólanema á vegum Sjávarútvegsklasa Vestfjarða og er unnið í samstarfi við Vestfjarðarstofu. Styrkurinn er ætlaður háskólanemum í grunn- eða framhaldsnámi við íslenska háskóla fyrir lokaverkefni sem hafa það markmið að skapa aukin verðmæti úr sjávarauðlindum eða efla atvinnulíf á vestfjörðum.

Orla Mallon og Ricarda Neehuis eru báðar annars árs nemar við Háskólasetur Vestfjarða sem hlutu 700.000 kr styrk til að setja upp lítið innanhúss fiskeldi og gróðurhús á Ísafirði með því markmiði að almenningur geti fylgst með og lært hvernig lífskeðjan virkar. Hugmyndina segir Ricarda meðal annars hafa kviknað hjá þeim eftir heimsókn í Heydal í Mjóafirði með námskeiðinu “Fæðukerfi strandsvæða” sem er kennt í meistaranámi hjá Háskólasetri. Í þeirri ferð fengu nemendur að skoða svokallað “aquaponics” kerfi, sem er ræktunaraðferð þar sem fiskeldi og ræktun matjurta mætast. Ricarda telur þessa aðferð ekki vera vel þekkta nema fólk sé að læra eða vinna á því sviði. Þar sem aðferðin tekur á mörgum vandamálum sem koma upp í hefðbundnu fiskeldi er mikilvægt að fleiri þekki til hennar en Orla og Ricarda telja að verkefni sem stuðli að samfélagslegri þátttöku sé skref í rétta átt. Í kerfinu sem þær vilja setja upp á Ísafirði verður til næring fyrir plöntur í fiskabúrinu og eftir að plönturnar taka næringu úr vatninu getur það farið aftur í fiskabúrið og úr þessu verður áhrifaríkt hringrásarferli. Auk þess er allt hýst innanhúss og ekki hætta á að fiskar sleppi. Ef verkefnið gengur vel vonast Orla og Ricarda til þess að hafa náð þremur markmiðum, að hafa frætt nemendur og almenning um þessa ræktunaraðferð, sett upp ræktunarstöð sem hægt er að heimsækja og að sjá hvað virkar og hvað virkar ekki við þessa aðferð miðað við aðstæður á Ísafirði. Ef vel gengur mun verða til fyrirmynd af þessu kerfi sem hægt er að stækka og endurgera í öðrum samfélögum sem stuðlar að sjálfbærri þróun á Vestfjörðum.

Ricarda og Orla eru í sitthvoru meistaranáminu við Háskólasetur Vestfjarða. Orla er með bakgrunn í sjávartengdum fræðum og er í meistaranámi í Haf- og strandsvæðastjórnun. Hún hefur áhuga á aðferðum sem draga úr álagi á umhverfisauðlindir. Hún vinnur einnig með grunnskólabörnum samhliða námi og myndi gjarnan vilja vera í samstarfi við skólana í kring þegar verkefnið er komið í gang. Ricarda er með bakgrunn í evrópskri menningu og samfélögum og er í meistaranámi í Sjávarbyggðarfræði. Hún hefur áhuga á því að styðja við sjávarbyggðir með því að bæta aðlögunarhæfni þeirra.

Þriðji nemandinn er Alexis Bradley sem er fyrsta árs nemandi hjá Háskólasetri Vestfjarða í Haf- og strandsvæðastjórnun. Hún hlaut 700.000 kr styrk til að rannsaka dreifingu og hugsanlega nýtingu grjótkrabba (Atlantic Rock Crab) á Norðanverðum Vestfjörðum. Grjótkrabbinn fannst upprunalega í Hvalfirði árið 2006 og hefur síðan dreift sér um landið. Hann kom líklegast til landsins með kjölfestuvatni en hann er veiddur í atvinnuskyni í Vestur-Atlantshafi. Íslenski stofninn af grjótkrabba er enn á vaxtarskeiði og því eru áhrif landnám hans óþekkt að mestu. Hann telst í dag vera veiðistofn sem á að vernda, þ.e. kvendýrum og litlum karldýrum verður að henda til baka. Í ljósi tækifæra til uppbyggingar fiskveiða mun þetta verkefni kanna árstíðabundna strauma grjótkrabbans til að skilja betur lífsferli hans og átta sig á því hvort fjöldi þeirra er nægilegur til að hægt sé að veiða þá.

Háskólasetur Vestfjarða óskar nemendunum þremur innilega til hamingju með styrkinn.