Starfsfólk og nemendur Háskólaseturs Vestfjarða tóku þátt í Hringborði Norðurslóða (Arctic Circle Assembly)

Um miðjan október sótti sendinefnd frá Háskólasetri Vestfjarða ráðstefnuna  Arctic Circle Assembly í Reykjavík. Hópurinn samanstóð af 13 nemendum úr námskeiði Dr. Romain Chuffart um stjórnarhætti á norðurslóðum, ásamt fjórum starfsmönnum; Dr. Brack Hale, Morgan Greene, Dr. Peter Weiss og Dr. Catherine Chambers. Þá voru einnig nemendur bæði af grunn- og meistaranámsleiðum SIT á Íslandi (School for International Training) fulltrúar Háskólasetursins undir stjórn Dr. Jill Welter, Dr. Christine Palmer og Sadie Ainsworth.

Dr. Catherine Chambers, rannsóknarstjóri og tilvonandi forstöðumaður HV , tók þátt í málstofu fimmtudaginn 16. október sem bar heitið „Getum við gert betur? Færni næstu kynslóðar stjórnsýslusérfræðinga á norðurslóðum,“ ("Can We Do Better? Skills For the Next Generation of Arctic Governance Experts). Þessi pallborðsumræða var skipulögð af nokkrum fræðastofnunum og stefnumótunaraðilum til að fjalla um þá sérfræðiþekkingu sem nauðsynleg er fyrir framtíðarstjórnun á norðurslóðum.

Hringborð Norðurslóða, sem haldið var 16.-18. október, er mikilvægur alþjóðlegur vettvangur þar sem saman koma 2.000 þátttakendur frá 70 löndum. Haldir voru 250 málfundir þar sem 700 fyrirlesarar fluttu erindi, þar á meðal ráðherrar, leiðtogar rannsóknarstofnana og fulltrúar frumbyggja á norðurslóðum.

Mikilvægur þáttur í námi um stjórnarhætti á norðurslóðum
Þátttaka í ráðstefnunni er órjúfanlegur hluti af námskeiðinu „Arctic Governance“ og veitir nemendum einstakt tækifæri til að kynnast umræðum á hæsta stigi um þær áskoranir og lausnir sem norðurslóðir standa frammi fyrir.

Námskeiðið sjálft fjallar um þau hröðu og umfangsmiklu áhrif sem loftslagsbreytingar hafa á norðurslóðir, sem auðvelda aukna nýtingu mannsins á auðlindum svæðisins. Fjallað er um stjórnsýsluáskoranir og tækifæri til samstarfs sem ríki á norðurslóðum standa frammi fyrir. Nemendur meta áhrif núverandi landfræðilegra atburða á samvinnu, greina mögulega skipan stjórnsýslu og varpa ljósi á sérstakt hlutverk frumbyggja.

Heimsókn í Sjávarklasann

Auk ráðstefnunnar heimsóttu nemendur Sjávarklasann (Iceland Ocean Cluster) þar sem Benedek Regoczi, nýsköpunarstjóri og fyrrum nemandi Háskólaseturs Vestfjarða, tók á móti hópnum.

Nemendur fræddust um markmið Sjávarklasans, sem eru að tengja saman frumkvöðla, fyrirtæki og rannsakendur til að knýja áfram nýsköpun í bláa hagkerfinu. Markmið Sjávarklasans er að hámarka virðisaukningu úr sjávarauðlindum, sérstaklega úr hliðarstraumum sjávarfangs, og stuðla að samvinnu þvert á atvinnugreinar til að tryggja sjálfbæran vöxt. Heimsóknin veitti hagnýta innsýn í efnahagslega og umhverfislega nýsköpun sem bætti við umræðurnar á Hringborði Norðurslóða.