Sólardagurinn

Gunna Sigga búin að gera allt klárt
Gunna Sigga búin að gera allt klárt

Þann 25. janúar ár hvert halda Ísfirðingar upp á sólardaginn, en þá er komu sólar fagnað með því að halda sólarkaffi þar sem drukkið er kaffi og borðaðar sólarpönnukökur með sykri eða sultu og rjóma. Í meira en hundrað ár hafa Ísfirðingar haldið þennan dag hátíðlegan, en hann miðast við þann dag er sól sleikir fyrst Sólgötuna, eftir langa vetursetu handan fjallanna.

Ísfirðingar eru misjafnlega vanafastir þegar kemur að því hvenær halda skal sólarkaffi. Sumir halda það alltaf 25. janúar, aðrir bíða þar til sól skín í Sólgötu og enn aðrir þar til sólin skín á þeirra eigin glugga. Við dæmum ekki um hvað rétt sé að gera, en þar sem sólardagurinn lenti á sunnudegi í ár, þá ákvað þjónustustjórinn okkar, hún Gunna Sigga, að bjóða upp á sólarkaffi í Háskólasetrinu í dag. Hún fór á fætur fyrir allar aldir og hrærði í deig, og tók pönnukökuilmurinn á móti starfsfólki þegar það mætti í vinnu fyrir klukkan átta. Steikt var í akkorði á tveimur pönnum og svo kallaður til liðsauki til að rúlla og rjómafylla áður en kallað var á nemendur í kaffi.

Það er árlegur siður hjá Gunnu Siggu, að halda sólarkaffi fyrir nemendur og starfsfólk HV, en ásamt því að baka pönnukökur, leiðir hún nemendur í allan sannleika um sólardaginn á Ísafirði og sögu íslensku pönnukökunnar… sem er nú ekkert endilega séríslensk, eða hvað? Hvað sem því líður, þá voru allir afskaplega sáttir við kaffiboðið.

Stöku sinnum í dag mátti jafnframt heyra gesti og gangandi raula sólarpönnukökulag Gylfa Ólafssonar, sem gert var í fyrra, og hefur þegar fest sig í sessi sem lofsöngur sólardagsins, jú og pönnukökunnar auðvitað.

Gleðilegan sólardag!