Sendiherra í heimsókn

Sendiherra Kanada á Íslandi, Jeannette Menzies, heimsótti Háskólasetur Vestfjarða í dag og ræddi við bæði nemendur og starfsfólk um áframhaldandi og aukið samstarf við kanadískar stofnanir. Ísafjörður tók á móti sendiherranum með blíðviðri og því tilvalið að fara í göngutúr um bæinn með nemendum í námskeiðinu Frá auðlindahagkerfi í aðlögunarkerfi: Sjávarbyggðir á tímum afþreyingar og ferðalaga.

Ekki er að ástæðulausu að sendiherra Kanada vilji heimsækja Háskólasetur, þar sem nokkuð stór hópur nemenda ár hvert kemur frá Kanada, sem og kennarar einstakra námskeiða. Fyrst ræddi Jeannette Menzies við Astrid Fehling, kennslustjóra, og Brack Hale, fagstjóra, um samstarf Háskólaseturs við kanadíska háskóla, m.a. Dalhousie háskóla í Nova Scotia og Memorial háskóla á Nýfundnalandi. Þau voru sammála um samstarfið væri mikilvægt beggja megin Atlantshafsins enda eigi strandbyggðir við og á Norðurheimskautinu margt sameiginlegt og nauðsynlegt að bera þekkinguna á milli.

Mikill áhugi er fyrir því að auka samstarfið, ekki síst á sviðum Sjávarbyggðafræðinnar, og efla samvinnu við vísindarannsóknir. Þá hefur þeirri hugmynd verið kastað fram að doktorsnemar frá Kanada dvelji hjá Háskólasetri um tíma, enda frábær vettvangur til rannsókna hvort sem er á sviði stefnu og stjórnunar haf- og strandsvæða eða byggðaþróunar smærri byggða á Norðurslóðum.

Að því loknu heilsaði Jeannette upp á Patricia Manuel, einn af kanadísku stundakennurum Háskólaseturs sem kemur frá Dalhousie University, og nemendur hennar á námskeiðinu Aðlögunarskipulag en sat svo kennslustund hjá Patrick Maher, annan kanadískan stundakennara sem kemur frá Nippissing University og kennir námskeið um hvernig byggðir geta þróast frá því að reiða sig eingöngu á hefðbundnar auðlindir til þess að byggja hagkerfi sitt á fleiri þáttum, svo sem ferðaþjónustu og afþreyingu. Nemendur námskeiðsins hafa nýlokið við að flokka ferðaþjónustuauðlindir Ísafjarðarbæjar og buðu sendiherranum í göngutúr þar sem þau sýndu henni nokkra viðkomustaði sem þeim þykja mikilvægir og fræddu hana um hvers vegna.

Þar á meðal var staðnæmst við Byggðasafnið, Dokkuna, Sundlaugina og Bókasafnið en einnig kíkt við í fiskbúðinni þar sem hópurinn fékk að smakka harðfisk og skoða tanngarð úr Grænlandshákarli. Þá var athugað hvernig bygging stúdentagarðanna gengur og að lokum haldið til baka í Háskólasetrið þar sem Jeannette settist að spjalli með kanadísku nemendunum á meðan þau gæddu sér á kókómjólk, kringlum og kleinum.