Opnun Baskaseturs á Djúpuvík

Laugardaginn 20. september síðastliðinn var Baskasetur Íslands opnað við hátíðlega athöfn. Setrið er staðsett á Djúpavík á Ströndum og er samstarfsverkefni Baskavinafélagsins, Albaola á Spáni, Haizebegi í Frakklandi, Hótels Djúpavíkur og Háskólaseturs Vestfjarða, og er þar sögð saga Baskanna og samskipta þeirra við Íslendinga. Baskarnir voru hér við hvalveiðar í þó nokkur ár, og frægast er þegar þeir urðu fyrir skipsskaða þegar þeir voru við hvalveiðar á Reykjafirði árið 1615.

Dr. Catherine Chambers, Alex Tyas og Pietro Calabretta

Opnun Baskaseturs á Djúpuvík er afurð Baskaverkefnisins sem styrkt var af Creative Europe, sjóði á vegum Evrópusambandsins, og var markmið verkefnisins að koma á fót varanlegri sýningu til að miðla sameiginlegum menningararfi smáþjóðanna tveggja, Baska og Íslendinga, og halda utan um menningar- og rannsóknartengda starfsemi og verkstæði sem byggja á þessum menningararfi í þeim tilgangi að minnast sameiginlegrar sögu Íslendinga og hvalveiðimanna frá Baskalandi, auk starfsemi sem tengist sjálfbærnimálum tengdum hafinu og litlum afskekktum samfélögum sem byggðu afkomu sína á fiskveiðum.

Háskólasetur Vestfjarða hlaut árið 2024 Jules Verne styrkinn, sem er styrkur til vísinda- og tæknisamstarfs milli íslenskra og franskra aðila, og er hluti af Baskaverkefninu. Styrknum var stýrt af Dr. Catherine Chambers, rannsóknarstjóra Háskólaseturs Vestfjarða og tilvonandi forstöðumanni þess, og Dr. Denis Laborde, þjóðfræðingi hjá frönsku rannsóknarstofnuninni fyrir vísindi. Verkefnið gekk út á að kanna sameiginlegan menningararf og sjávarminjar Íslands og Baskalands sem getur gegnt hlutverki í sjálfbærri samfélagsþróun.

Dr. Ed Nedelciu og Randall Morgan Greene, fagstjóri Sjávarbyggðafræði.

Opnun Baskasetursins sóttu m.a. sendiherra Frakklands, Guillaume Bazard, fulltrúi spænska sendiráðsins, María Luisa Marteles Gutiérres del Álamo og Guðni Th. Jóhannesson, fyrrum forseti Íslands, sem opnaði sýninguna. Starfsfólk og nemendur Háskólaseturs sóttu einnig opnunina, og héldu Dr. Catherine Chambers og Alex Tyas, fyrrum nemandi Háskólaseturs og umsjónarmaður Jules Verne verkefnisins, erindi þar sem þær útskýrðu þátttöku HV í verkefninu. 

Nemendur í Sjávarbyggðafræði við Háskólasetur Vestfjarða fóru með sem hluti af námskeiðinu „Fólkið og hafið“, ásamt kennara sínum, Dr. Eduard Nedelciu og fagstjóranum Randall Morgan Green og fengu nemendur m.a. tækifæri til að setjast niður og ræða málið með Skúla Gautasyni, menningarfulltrúa Vestfjarðastofu, og Ólafi J. Engilbertssyni, formanni Baskavinafélagsins.

Nemendur námskeiðsins „Fólkið og hafið“ ræða við Skúla Gautason og Ólaf J. Engilbertsson.