Netkynning á meistaranámi í sjávarbyggðafræði og haf- og strandsvæðastjórnun

Miðvikudaginn 4. febrúar næstkomandi verður haldin netkynning á meistaranámsleiðum Háskólaseturs Vestfjarða í sjávarbyggðafræði og haf- og strandsvæðastjórnun.

Þar geta allir þeir sem áhuga hafa á námi við HV fengið upplýsingar, en fagstjórar meistaranámsins segja frá námsleiðunum tveimur, uppbyggingu þeirra, áherslum og atvinnumöguleikum að námi loknu. Fagstjórarnir og núverandi nemendur svara spurningum þátttakenda að kynningunni lokinni. Kynningin fer fram á ensku í gegnum Zoom.

Sjávarbyggðafræði er eina sérhæfða byggðafræðinámið á Íslandi. Námið er þverfræðilegt meistaranám þar sem fengist er við þróun byggða í fortíð og framtíð. Námið byggir einkum á félagsfræði, hagfræði, mannvistarlandfræði og skipulagsfræði.

Haf- og strandsvæðastjórnun er þverfræðilegt meistaranám á sviði umhverfis- og auðlindastjórnunar með áherslu á hafið og ströndina. Í náminu kynnast nemendur ýmsum aðferðum við stjórnun haf- og strandsvæða út frá efnahagslegum, félagslegum og umhverfislegum forsendum.

Námsleiðirnar eru kenndar í staðnámi á Ísafirði í samstarfi við Háskólann á Akureyri og útskrifast nemendur með gráðu frá HA. Nemenda- og kennarahópurinn er mjög fjölbreyttur en bæði kennarar og nemendur koma víða að úr heiminum og hafa margvíslegan bakgrunn. Inntökuskilyrði í báðar námsleiðir eru þau að umsækjandi hafi lokið grunnháskólagráðu BA, BSc eða BEd, óháð námsgrein.

Smelltu hér til að skrá þig á netkynninguna

Nánari upplýsingar og rafræn umsóknareyðublöð fyrir meistaranámið má finna á vefsíðum námsleiðanna:

Einnig má senda fyrirspurnir á info@uw.is.