Námskeiðið Fólkið og hafið: landfræðileg sjónarmið

Dr. Ed Nedelciu
Dr. Ed Nedelciu

Námskeiðið Fólkið og hafið: Landfræðileg sjónarmið hefst við Háskólasetur Vestfjarða á morgun. Landfræði skiptir máli – hvort sem um er að ræða átök um auðlindir og landamæri, viðskipti, fólksflutninga eða byggðaþróun. Staðbundnar aðgerðir geta haft áhrif á heimsvísu – og öfugt.

Í þessu námskeiði verða kynnt til sögunnar hugtök, meginreglur og nálganir úr félags- og menningarlandfræði, sem og efnahags- og svæðislandfræði. Með því að gefa nemendum yfirlit yfir bæði klassískar og gagnrýnar samtímanálganir, öðlast þeir getu og verkfæri til að greina staðbundnar og svæðisbundnar þróunarleiðir í samhengi við hnattrænar aðstæður. Jafnframt verður fjallað um samtímaáskoranir strandbyggða á heimskautasvæðinu, með sérstakri áherslu á samband manns og náttúru, og hlutverk náttúruauðlinda í þróun byggða og samfélaga. Sérstaklega verður litið til samgangna og innviða í strjálbýlum samfélögum í hnattrænum heimi.

Að námskeiði loknu ætti nemandi meðal annars að geta tengt landfræðileg sjónarmið við strandbyggðir og -svæði, komið auga á helstu leiðir til greiningar á strand- og sjávarsvæðum, og fjallað gagnrýnið um helstu viðfangsefni landfræðinnar, bæði í ræðu og riti. Þetta þriggja vikna námskeið inniheldur vettvangsferðir, heimsóknir til fyrirtækja, gestafyrirlestra og gagnvirka verkefnavinnu

Kennari námskeiðsins er Dr. Eduard Nedelciu. Hann er með doktorsgráðu í umhverfis- og auðlindafræðum frá Háskóla Íslands og Stokkhólmsháskóla. Rannsóknir hans snúast um sjálfbæra auðlindastjórnun og efnahagslega umbreytingu í ljósi sjálfbærniþróunar.

Hann er hluti af SEAS-doktorsverkefninu um sjálfbærni í hafinu við Háskólann í Bergen. Í sínu nýdoktorsverkefni notar Ed kerfislæga hugsun og kenningar úr vistfræðilegri hagfræði til að greina tilurð djúpsjávarnámugreftrar og áhrif hans á stefnumótun, stjórnsýslu og fræðasamfélagið. Hann kennir einnig kerfislæga hugsun og líkanagerð (system dynamics) við Háskóla Íslands og Háskólann í Bergen.

Við minnum á að öll meistaranámskeið sem kennd eru við Háskólasetur Vestfjarða eru opin þátttakendum jafnt frá háskólum sem atvinnulífi. Hafir þú áhuga á að sækja stök námskeið hjá Háskólasetri getur þú kynnt þér kennsluskrána okkar og sent inn umsókn um stakt námskeið.