Námskeið í haffræði hófst í síðustu viku við HV.
Á þessu námskeiði munu nemendur læra grundvallaratriðin um það hvernig hafið virkar. Byrjað verður á að skoða myndun hafsvæða og helstu einkenni þeirra og síðan er komið að vatninu, bæði fersku og söltu, eiginleikum þess og hvernig það mótar umhverfi hafsins. Til að skilja hvernig vatnið hreyfist í hafinu verður kafað ofan í andrúmslofts- og hafstraumafræði: allt frá hreyfingu lofts (vinda) til yfirborðsstrauma, strauma undir yfirborði hafsins og í hafdjúpunum . Einnig verður fjallað um hvernig öldur og sjávarföll myndast og hegða sér, og jafnframt verður rætt hlutverk hafsins í loftslagkerfinu bæði á jarðfræðilegum tímakvörðum, í nýlegri fortíð og í núverandi- og framtíðarþróun.
Að þessu sinni eru kennarar námskeiðsins tveir. Fyrst er það Dr. Ángel Ruiz Angulo, sem er hafeðlisfræðingur með sterkan áhuga á aflfræði straumefna, og starfar nú sem dósent við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands. Rannsóknir hans beinast að hafvísindalegum ferlum, þar á meðal hringstraumum, innri öldum, iðustreymi og flóðbylgjum. Hann stundaði grunnnám við Universidad Nacional Autónoma de México, lauk meistarapróf og doktorsnámi í aflfræði straumefna við Caltech og starfaði síðan sem nýdoktor í hafeðlisfræði við LDEO hjá Columbia-háskóla.
Í öðru lagi bætist Dr. Theodoros Karpouzoglou í hópinn í ár. Hann er hafeðlisfræðingur og hefur starfað hjá Hafrannsóknastofnun Íslands frá árinu 2024. Hann hefur áhuga á að greina vatnafræðileg gögn til að skilja breytileika í vatnafræði og loftslagi á norðurslóðum og á kaldtempraða beltinu (subarctic). Árið 2023 lauk hann doktorsnámi sínu um flutning ferskvatns með Austur-Grænlandsstraumnum í Framsundi. Árið 2019 lauk hann meistaraprófi í loftslagsfræði við Háskólann í Utrecht með áherslu á líkanagerð á vistkerfisáhrifum stórra fljótandi sólarorkuvera. Árið 2017 lauk hann BS-prófi í eðlisfræði við Háskólann í Aþenu, með áherslu á hafeðlisfræði Miðjarðarhafsins og hringrás vatns úr Atlantshafi í Evrasíubotninum í Norður-Íshafi.
Frekari upplýsingar um námskeiðið má finna hér.
Öll meistaranámskeið sem kennd eru við Háskólasetur eru opin gestanemum, skiptinemum og fólki úr atvinnulífinu og eru hluti af tveimur alþjóðlegum þverfaglegum meistaranámsleiðum, haf- og strandsvæðastjórnun, og sjávarbyggðarfræði.