Námskeið í haf- og strandsvæðastjórnun

Dr. Charlie Short
Dr. Charlie Short

Í dag hefst námskeiðið Haf- og strandsvæðastjórnun: kenningar og verkfæri, hjá Háskólasetri Vestfjarða.

En hvað er stjórnun haf- og strandsvæða? Hvað þarf að vita og hvaða verkfæri og aðferðir höfum við til umráða? Staðreyndin er sú að árangursrík stjórn haf- og strandsvæða krefst þverfaglegrar nálgunar. Þú þarft að skilja grunnatriðin sem liggja að baki staðbundnu vistkerfi, félagslegum þáttum, efnahagslegum hvötum og áhrifum, sem og menningarlegum venjum og hefðum.


Á námskeiðinu verða kannaðir fjölbreyttir þættir er varða stjórnun haf- og strandsvæða, þar á meðal kenningar, vistfræði, stefnumótun, löggjöf og tiltekin verkfæri og aðferðir. Námskeiðið fjallar um hugtök, meginreglur, nálganir, ferla og áskoranir sem tengjast samþættri stjórn strandsvæða og hafsvæða. Þetta er gert með því að fara yfir þróun og sögu samþættrar strandsvæðastjórnunar (ICZM – Integrated Coastal Zone Management) í alþjóðlegu samhengi. Yfirlit verður gefið yfir mismunandi stjórnunaraðferðir, auk þess sem fjallað verður um hvað samþætting þýðir í samhengi við stjórnun náttúruauðlinda. Einnig verða kynnt dæmi frá mismunandi löndum sem verða greind og rædd. Fjallað verður um bæði árangursríkar og misheppnaðar aðferðir í samþættri haf- og strandsvæðastjórnun og þær greindar. Námskeiðið er hannað til að veita nemendum breiðan og traustan skilning á málefninu sem þeir geta byggt á í gegnum námið. Fyrirlestrar, hópvinna og hagnýt og verkleg verkefni verða nýtt, auk möguleika á vettvangsferðum á staðnum.

Kennari námskeiðsins er Dr. Charlie Short, sem er upprunalega frá suðurhluta Ontario í Kanada, en eyddi hluta æsku sinnar í Suður-Kaliforníu og Hawaii með fjölskyldu sinni. Hann flutti síðar til Bresku Kólumbíu til að hefja grunnnám við Háskólann í Victoria. Þar þróaði hann með sér mikinn áhuga á hafinu og lagði sérstaka áherslu á strand- og hafauðlindir og villt sjávardýr í námi sínu. Hann hélt síðan áfram í framhaldsnám í hafvistfræði (Marine Ecology) og rannsakaði útbreiðslu hvala í tengslum við verndarsvæði í hafi við vesturströnd Vancouver-eyju í Bresku Kólumbíu, Kanada.

Eftir nokkur ár við rannsóknir á sjávarspendýrum (við vesturströnd Bandaríkjanna, í Mexíkóflóa og við vesturströnd Suðurskautslandsins) sneri Charlie aftur til Kanada og hóf störf hjá ríkisstjórn Bresku Kólumbíu árið 2006 sem sérfræðingur í haftengdum málefnum. Hann hefur starfað þar síðan og unnið að fjölmörgum verkefnum sem tengjast haf- og strandsvæðastjórnun.

Við minnum á að öll meistaranámskeið sem kennd eru við Háskólasetur Vestfjarða eru opin þátttakendum jafnt frá háskólum sem atvinnulífi. Hafir þú áhuga á að sækja stök námskeið hjá Háskólasetri getur þú kynnt þér kennsluskrána okkar og sent inn umsókn um stakt námskeið.