Háskólahátíð í stafalogni á Hrafnseyri

Venju samkvæmt fór Háskólahátíð fram á Hrafnseyri þjóðhátíðardaginn 17. júní, sem hluti af hátíðardagskránni á fæðingarstað Jóns Sigurðssonar. Óvenjustór hópur útskriftarnema tók þar við skírteinum sínum frá rektor HA og fékk útskriftarkolla Háskólaseturs, sem eru prjónaðar "skotthúfur" í þjóðlegum stíl, og er útskriftarárið grafið í kólfinn. Að þessu sinni höfðu 15 nemar lokið meistaraprófi frá síðustu Háskólahátíð, fjögur úr 2022 árganginum og 11 úr 2023 árganginum.

Að auki mættu eldri nemar sem þegar höfðu lokið námi og útskrifast en ekki getað mætt á Háskólahátíð á sínum tíma. Það er aldrei of seint að fá sína húfu og taka þátt í hátíðinni en elsti útskriftarneminn var úr 2012 árgangnum.

Þá útskrifaðist einn meistaranemi úr fjarnámi í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri, en Háskólahátíð er opin öllum sem búa á Vestfjörðum og vilja halda upp áfangann með fjölskyldu og vinum í sinni heimabyggð, sama frá hvaða háskólastofnun þau ljúka prófi.

Veðrið lék við hátíðargesti á Hrafnseyri þar sem fánar blöktu nánast ekki þótt dregnir væru að hún svo hátíðardagskráin fór fram utandyra að lokinni guðsþjónustu í Hrafnseyrarkirkju.

Hátíðarræðuna flutti Ísfirðingurinn Vigdís Jakobsdóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík, og lauk erindi sínu á að flytja ljóð eftir Huldu. Kristín Sesselja flutti tónlist og kynnir á hátíðinni var Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í nafni Jóns Sigurðssonar.

Kristen Lowitt hélt stutt ávarp fyrir hönd kennara og Reesha Price og Carina Burrough fluttu skemmtilega, rímaða kveðju frá útskriftarhópnum.

Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs, og fagstjórarnir Matthias Kokorsch og Brack Hale, leystu útskriftarnema Háskólaseturs Vestfjarða loks út með skotthúfunum og trjáplöntum sem nemendur gróðursettu svo í brekkunni fyrir aftan kirkjuna en þar er að koma til myndarlegur skógur sem ber vott um sívaxandi fjölda fólks sem ljúka meistaraprófi frá Háskólasetri, og elstu trén komin vel á veg.

Það var nokkur handagangur í öskjunni við gróðursetninguna og sparifötin komu ekki í veg fyrir að starfsfólk og útskriftarnemar leggðu sitthvað á sig til að stinga upp grashnausa og þjappa mold. Ógleymanlegur dagur fyrir alla útskriftarnemana og óskum við hjá Háskólasetri þeim enn og aftur til hamingju með áfangann og velfarnaðar í framtíðinni.