Fyrsti hópur nemenda flytur inn á stúdentagarða

Mikið fagnaðarerindi var þegar fyrsti hópur nemenda flutti inn á stúdentagarða Háskólaseturs Vestfjarða í gær. Um er að ræða annað húsnæði af tveimur sem hefur nú verið tekið í notkun en hitt húsið er ennþá í byggingu og stefnt er að því að það verði tilbúið í haust. Formleg opnun stúdentagarða verður tilkynnt síðar.

Húsnæðið sem nemendur fluttu inn í er ekki alveg fullklárað. Herbergi nemenda eru tilbúin en einhver frágangur er eftir á sameiginlegu rými. Smiðir eru ennþá á staðnum og verða í nokkra daga til viðbótar að leggja lokahönd á verkið.

„Það er skárra að byrja en að bíða eftir fullkomnun“ – segir Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða sem var á hlaupum við að aðstoða nemendur við að flytja og koma sér fyrir ásamt öðru starfsfólki Háskólaseturs Vestfjarða.

Góður andi var yfir nemendahópnum og þau voru öll spennt að skoða húsnæðið. Þau hjálpuðust að við að bera dót milli hæða og flökkuðu um að skoða herbergin sín og hjá samnemendum sínum. Hér fyrir neðan má sjá nemenda hæst ánægðan með herbergið sitt með útsýni á hafið.

Sigríður Kristjánsdóttir sem er í stjórn Húsnæðissjálfseignarstofnunar Háskólaseturs Vestfjarða telur þetta vera ánægjuleg tímamót að vera komin á þennan stað að fólk sé flutt inn í húsið.

„Það er svolítið skemmtilegt að frá því að fyrst var byrjað að ræða og setja einhverjar áætlanir á blað eru liðin tvö ár. Háskólasetur Vestfjarða byrjaði að huga að byggingu stúdentagarða í desember 2021 og við erum komin hingað í september 2023. Fullbúið hús“ – segir Sigríður.

Sigríður segist vera ánægð og glöð og vonar að það fari vel um nemendurna og að þau njóti þess að byggja upp húsmenningu. Fleiri myndir af stúdentagörðum má sjá hér fyrir neðan.