Franskir dagar í Háskólasetri Vestfjarða

David Didier
David Didier

Síðustu daga var töluvert mikið töluð franska í Háskólasetri Vestfjarða – en það skýrist af komu góðra gesta til HV. Í heimsókn voru David Didier, háskólakennari við Université du Quebeq á Rimouski ásamt þremur kollegum og hópi tólf námsmanna á sviði jarðmótunarfræði (e. geomorphology).

David Didier hefur verið í tengslum við Háskólasetur Vestfjarða í um tíu ár, fyrst í sambandi við franskan rannsóknarmannahóp um sjávarrof (e. coastal erosion) vegna loftslagsbreytinga og hækkandi sjávarstöðu. Hann hefur jafnframt tekið þátt í alþjóðlegri ráðstefnu um landupplýsingarkerfi, CoastGIS, sem haldin var af HV 2018 og svo hefur hann í kjölfarið kennt námskeið og leiðbeint nemendum í sínum lokaritgerðum. Þó HV afli stundakennara og leiðbeinenda til vinnu til skamms tíma í senn, eru þeir samt oftast úr tengslaneti, sem er mjög verðmætt fyrir litla stofnun við Grænlandsund.

Rannsóknaráhugi Davids á síðustu árum hefur beinst að breytingum á sandfjörum á tímum hækkandi sjávarstöðu og þá sérstaklega á ósnortnum sandfjörum við opið haf. Hann hefur komið reglulega til Háskólaseturs síðustu árin, á öllum árstímum, og hefur í hvert skipti tekið út einhverja fjöru m.a. í Skálavík. Ógleymanleg er ferðin þegar hann, ásamt nokkrum nemendum og kollegum, fóru fótgangandi niður í Skálavík í apríl og drógu öll mælitæki á sleða í mikilli ófærð. Í gegnum árin hefur Didier verið duglegur að taka með sér gesti til Íslands, og örugglega um það bil tuttugu kollegar hans og nemendur komið í heimsókn, og hefur tengslanet HV vaxið töluvert í gegnum það. Um leið byggist upp tenglsanet við aðrar stofnanir á Vestfjörðum, í þessu tilfelli aðallega við Snjóflóðasetrið.

Í ár var David hér ásamt fríðu föruneyti fræðimanna. Með honum í för voru Thomas Buffin-Bélanger prófessor og sérfræðingur í stjórnun flóða og náttúruvá af völdum flóða, t.d. hamfaraflóða. Einnig var Guillaume Marie prófessor sem fæst við strandsvæðastjórnun og eðlisrænum breytingum strandsvæða. Hann er í vinnuhópi um Integrated coastal zone management, sem er kjarnasvið náms í Haf- og strandsvæðastjórnun hjá HV. Jafnframt var í för með David Francis Gauthier prófessor í jarðfræði og jarðeðlisfræði, sérhæfður í jarðmótunarfræði fjalla og hlíða (e. geomorphological dynamics of hills and slopes) og náttúruvá tengd þeim, t.d. aurflóðum.

Nemendahópurinn og kennarar töldu kjörið að heimsækja Ísland, enda hér hægt að finna ófrjósamt land og auðnir þar sem hægt er að sjá glöggt jarðmyndun sem er ekki þakin gróðri og hefur ekki verið breytt af mannavöldum. Að sjálfsögðu er heimsóknin til Vestfjarða líka vel nýtt til að kynnast Snjóflóðasetri og öðrum stofnunum.