Það er okkur sönn ánægja að tilkynna að Dr. Catherine Chambers hefur verið ráðin forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða. Catherine er með doktorsgráðu frá Háskóla Alaska, Fairbanks frá 2016, meistaragráðu í dýravistfræði frá Southern Illinois Háskóla frá 2008 og bakkalárgráðu frá Drake-háskólanum frá 2004. Hún er með töluverða reynslu af kennslu auk þess að hafa starfað sem leiðbeinandi nema í meistararitgerðum þeirra.
Catherine er með umfangsmikinn birtingarlista fræðigreina, þar má nefna 27 birtar rannsóknargreinar og 5 bókarkafla, en þar að auki hefur hún haldið yfir 50 fyrirlestra bæði á íslandi og erlendis. Hún hefur einnig víðtæka reynslu af að sækja um rannsóknar- og þróunarstyrki og er vel tengd á sviði norðurslóðafræða og haftengdra fræða, en það eru einmitt svið sem Háskólasetur Vestfjarða er sérhæft í. Catherine hefur starfað hjá Háskólasetrinu í meira en tíu ár, fyrst 2013 sem prófdómari og leiðbeinandi, síðan sem stundakennari 2014 og svo sem fagstjóri meistaranáms í Haf- og strandsvæðastjórnun frá 2016. Árið 2020 bauðst Catherine að taka við starfi rannsóknarmanns í virtri Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri. Starfinu hefur hún sinnt frá Ísafirði, en hefur jafnframt verið í hlutastarfi hjá Háskólasetri Vestfjarða sem rannsóknastjóri.
Catherine situr í stjórn Náttúrustofu Vestfjarða, tilnefnd af Ísafjarðarbæ. Hún er varaformaður stjórnar Hafna Ísafjarðarbæjar og formaður stjórnar Fulbright á Íslandi. Hún er virk í rannsóknum og stjórnsýslu rannsókna sem og í faglegri þjónustu innanlands og á alþjóðlega vísu, t.d. í International Arctic Science Committee (IASC) og í International Council for the Exploration of the Sea (ICES) og hefur verið ráðgjafi í stefnumótunarverkefni matvælaráðuneytis.
Catherine Chambers er orðin mikill Vestfirðingur síðan hún flutti 2016 vestur frá Blönduósi og Hólum þar sem hún hafði starfað áður. Hún hefur verið virk í foreldrafélagi, hefur starfað sem sundkennari og var sjálfboðaliði í leiklistahópi og þekkir samfélagið á Vestfjörðum vel. Stjórn Háskólaseturs hafði úr að velja fjölda áhugaverðra umsækjenda, en umsækjendur í heild voru sjö. Staðan var auglýst eftir að núverandi forstöðumaður, Peter Weiss, ákvað nú í vor að láta af störfum eftir tuttugu ár í brúnni. Fráfarandi forstöðumaður mun sinna starfinu þar til Catherine tekur við í apríl 2026 eftir að hún kemur til baka úr rannsóknarleyfi sem gestaprófessor við Háskólann í Tókýó.