Búið að ráða í tvö stöðugildi hjá Háskólasetri

Randall Morgan Greene nýr fagstjóri meistaranáms í byggðafræði

Hjá Háskólasetri Vestfjarða hafa verið auglýst stöðugildi fagstjóra og vefstjóra og eru ástæður ánægjulegar, enda viðbót. Ráðningarnefnd um stöðu fagstjóra ákvað að ráða Randall Morgan Greene sem fagstjóra meistaranáms í byggðafræði. Morgan hefur unnið í mjög svipuðu starfi í Orkuskóla Háskólans í Reykjavík á árunum 2015-2023. Sérsvið hans er hagfræði, stjórnmálafræði og sjálfsagt orkumál, en hann rannsakar í doktorsritgerð sinni viðhorf til orkuskipta. Morgan Greene mun hefja störf í haust og mun flytja til Vestfjarða frá Kópavogi ásamt fjölskyldu.

Umsækjendur um stöðu fagstjóra meistaranáms í byggðafræði voru 16, þar af 10 með doktorspróf eða mislangt komnir með doktorsritgerð. Fjöldi umsækjenda var með mikla reynslu af kennslu á háskólastigi, reynslu í að leiðbeina nemendum eða reynslu af akademískri stjórnsýslu. Fagið er þverfaglegt og menntunarbakgrunnur getur verið mismunandi, en mikilvægt er að nýi fagstjórinn sé með opinn hug varðandi breidd fagsins. Stöðugildið er tilkomið vegna þess að núverandi fagstjóri byggðafræðináms, Matthías Kokorsch, landaði umfangmiklum rannsóknarstyrk (ARCHAIC, LostToClimate) og mun færa sig á nýtt stöðugildi í rannsóknum hjá Háskólasetri til næstu fjögurra ára. Fjölgar því stöðugildum hjá Háskólasetri og slaga nú í tuttugu.

Hjördís Þráinsdóttir verður nýr vefstjóri 

Afleysing vefstjóra er 40% til tveggja ára og til komin vegna fæðingarorlofs. Ráðningarnefnd ákvað að ráða Hjördísi Þráinsdóttur í starfið. Hjördís hefur starfað sem verkefnastjóri hjá Háskólasetri í hutastarfi frá s.l. hausti og getur bætt við sig þessum 40%. Það er kostur að afleysarinn þekkir þegar til starfsins og þarf lítinn sem engann aðlögunartíma. Hjördís mun hefja störf í ágúst. Umsækjendur um stöðugildið voru 14, en þremur var boðið í viðtal.