Vísindaport: Tæknimenntun á heimsmælikvarða í Fab Lab

Í vísindaporti vikunnar fáum við Svavar Konráðsson, verkefnastjóra Fab Lab á Ísafirði, í heimsókn. Fab Lab Ísafjörður kynnir Fab Academy – sex mánaða nám þar sem þátttakendur læra að hanna og smíða (nánast) hvað sem er og fá innsýn í nýjustu tækni og stafrænar framleiðsluaðferðir.

Einnig verður sagt frá Fab Futures, mánaðarlöngum námskeiðum sem hefjast í næstu viku. Fab Futures eru hugsuð sem framtíðarstarfsnám þar sem þátttakendur geta lært að greina gögn, búa til tölvuleiki, hanna örflögur, stofna sprotafyrirtæki, þróa vörur fyrir fjöldaframleiðslu og margt fleira – allt undir leiðsögn leiðandi sérfræðinga á sínu sviði.

Svavar Konráðsson er verkefnastjóri í Fab Lab og kennir stafræna hönnun og framleiðslu í Fab Academy, í Menntaskólanum á Ísafirði og í grunnskólum á norðanverðum Vestfjörðum. Hann er með MS í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands, er einn af stofnendum Team Spark kappakstursbílaliðsins og starfaði áður sem hönnuður hjá bátasmiðjunni Rafnar.

Erindið fer fram á kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða og hefst kl. 12.10. Erindinu er einnig streymt í gegnum zoom hlekk og má finna hann hér https://eu01web.zoom.us/j/69947471079

Fyrirlesturinn fer fram á íslensku