Í vísindaporti vikunnar bjóðum við velkomna Dr. Marie Schellens, umhverfisfræðing hjá friðaruppbyggingarsamtökunum PAX (NL) og stundakennara við Háskólasetur Vestfjarða. Hún mun fjalla um umhverfisáhrif stríðs og hvernig átök, loftslag og friðaruppbygging tengjast.
Því miður sjáum við á undanförnum árum aukningu í fjölda stríða og fórnarlamba þeirra. Á sama tíma erum við að upplifa það sem Sameinuðu þjóðirnar kalla „þrefalda hnattræna kreppu“: (1) mengun, (2) rýrnun náttúru og vistkerfa og (3) loftslagskreppu – sem allar eru yfir vísindalega skilgreindum öryggismörkum á heimsvísu og hafa samtímis alvarleg áhrif á vistkerfi, samfélag og efnahag.
Þessar tvær ólíku hnattrænu áskoranir – umhverfið annars vegar og átök hins vegar – eru í vaxandi mæli ræddar í tengslum hvor við aðra. En hvað er í raun að gerast? Leiðir loftslagsbreyting til meiri stríðsátaka? Hver eru áhrif stríðs á umhverfið og þar með á heilsu og lífsskilyrði þeirra sem eftir sitja í stríðshrjáðum svæðum? Hversu miklu magni gróðurhúsalofttegunda er sleppt út vegna stríðsreksturs? Eru orkuskiptin okkar í átt að grænni orku að leiða til kapphlaups um átakaauðlindir?
Í þessu vísindaporti verður fjallað um hvernig loftslagsbreytingar, mengun og stríð hafa áhrif hvert á annað og magna hvert annað upp. Einnig verður sýnt fram á hvernig umhverfis- og loftslagsaðgerðir eru í vaxandi mæli fléttaðar inn í friðaruppbyggingu og hvernig samvinna um náttúru, loftslag og sameiginlegar auðlindir getur stuðlað að trausti og sátt.
Marie Schellens landupplýsinga- og umhverfisgreinandi hjá friðarsamtökunum PAX, í Hollandi, fylgist með umhverfisspjöllum af völdum stríðs með gervihnattagögnum í samstarfi við borgarasamtök í löndum sem hafa orðið fyrir áhrifum af átökum. Hún vinnur að því að byggja upp traustar vísindalegar stoðir fyrir sterkari alþjóðleg viðmið og stefnu í tengslum við umhverfi, loftslag og átök, og styður samþættingu umhverfisverkefna í friðarstarfi.
Hún er með doktorsgráðu frá Háskólanum í Stokkhólmi þar sem hún rannsakaði hlutverk náttúruauðlinda í átökum, og starfaði í nokkur ár hjá deild Sameinuðu þjóðanna um átök og hamfarir (UN Environment Programme – Conflicts and Disasters Branch).
Erindið fer fram á kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða og hefst kl. 12.10
Fyrirlesturinn fer fram á ensku