Í vísindaporti vikunnar bjóðum við velkomna Alessöndru Schnider, sem nýlega lauk doktorsnámi við Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar snúast um hvernig samspil erfða og umhverfis mótar svipgerð lífvera, og nýlega hefur hún rannsakað svipbreytileika og áhrif milli kynslóða hjá hornsílum úr Mývatni.
Svipbreytileiki er hæfni einnar arfgerðar til að mynda mismunandi svipgerðir sem svar við umhverfisáreiti. Þetta getur dregið úr áhrifum erfiðra umhverfisskilyrða innan og milli kynslóða og er mikilvægur þáttur í aðlögunarferli með náttúruvali. Markmið verkefnisins var að skilja hvernig umhverfisáhrif móta svipgerð hornsíla, bæði innan og milli kynslóða í hinu breytilega vistkerfi Mývatns.
"Við framkvæmdum tilraun yfir margar kynslóðir þar sem afkvæmi hornsílanna úr tveimur ólíkum búsvæðum voru alin við mismunandi hitastig og fæðuskilyrði. Við greindum svipgerðir hjá seiðum og kynþroska kvendýrum og karldýrum yfir tvær kynslóðir. Þá söfnuðum við einnig lifrarsýnum frá kynþroska tilraunadýrum og villtum dýrum til umritunargreiningar, til að öðlast betri skilning á undirliggjandi sameindavirkni.Við fundum skýr umhverfisáhrif á eiginleika sem tengjast lífsþrótti beint. Því virðast áhrif milli kynslóða skipta sköpum fyrir líffræðilegan árangur í þessu síbreytilega kerfi. Við greindum einnig gen sem sýndu mismunandi tjáningu eftir hitastigi og fæðu, sem gætu minnkað álag frá umhverfinu og stutt við útbreiðslu í ný búsvæði. Þessi rannsókn bætir við skilning okkar á svipbreytileika og áhrifum milli kynslóða í breytilegum vistkerfum. Að samþætta marga umhverfisþætti yfir líffræðilega mikilvæg tímabil er sjaldgæft, sem gerir niðurstöðurnar mikilvægar til að skilja hvernig svipbreytileiki stuðlar að líffræðilegum fjölbreytileika."
Alessandra Schnider ólst upp í Sviss og lauk B.Sc.-námi í líffræði og M.Sc.-námi í mannfræðilegri líffræði við Háskólann í Zürich. Í meistararitgerð sinni rannsakaði hún hvernig skyldleiki hafði áhrif á jákvæða félagshegðun meðal kvenkyns grávartaapa og hvernig árstíðabundnar sveiflur í fæðuframboði mótuðu þetta samband.. Eftir hlé frá námi, þar sem hún ferðaðist og lauk yogakennaranámi, hóf hún doktorsnám við Háskóla Íslands og flutti til Skagafjarðar í ágúst 2019. Margir undruðust þessa „stóru stefnubreytingu“, en fyrir Alessöndru var spurningin alltaf sú sama: hvernig mótar samspil erfða og umhverfis svipgerð einstaklings.
Í doktorsnáminu stofnaði hún samskipta- og fræðsluvettvanginn ICE Fish Research og heldur nú úti hlaðvarpinu Fiskaspjall, sem fer í loftið í október. Í nóvember hefst svo nýr kafli þegar hún tekur við starfi verkefnastjóra hjá Eimur, samstarfsverkefni sem miðar að því að efla sjálfbæra nýtingu auðlinda á Norðurlandi.
Erindið fer fram á kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða og hefst kl. 12.10. Erindinu er einnig streymt í gegnum zoom hlekk og má finna hann hér https://eu01web.zoom.us/j/69947471079
Fyrirlesturinn fer fram á ensku