Vísindaport: Lycée de la mer - Franski skóli hafsins

Í vísindaport vikunnar fáum við til okkar góðan gest, hann Olivier Rocher frá Lycée de la mer – Fjölbrautarskóla hafsins í Sète í Frakklandi. Hann mun kynna stofnunina sína og segja frá þátttöku hennar í evrópskum áætlunum sem miða að því að virkja nemendur og þátttakendur í alþjóðlegu námi og þjálfun.

Frakkar hafa þróað áhugavert kerfi í starfsmenntun þar sem sérhæfðir fjölbrautaskólar, undirbúningsnám á háskólastigi og bakkalárnám fléttast meira saman. Hjá Lycée de la mer – Fjölbrautarskóla hafsins – eru í boði starfstengdar námsleiðir á framhaldsskólastigi, til dæmis þriggja ára sérhæft stúdentspróf í fiskveiðum, sjávartengdri rafmagnsverkfræði, snekkjubátaútgerð og sjórækt. Einnig eru í boði tveggja ára BTSM/BTSA námsleiðir sem eru skref nær háskólanámi, þar sem sérhæfing er annars vegar í lagareldi og hins vegar í sjávarútvegi og sjávartengdri umhverfisstjórnun.

Skólinn hans, Lycée de la mer, hefur tengsl við okkur í Háskólasetri Vestfjarða í gegnum samstarfsnet í kennslu í lagareldi. Skólastjóri og kennarar skólans hafa þegar heimsótt bæði Háskólasetrið og Menntaskólann á Ísafirði, og mikill hluti lagareldisnámsins fer fram í starfsnámi hjá fyrirtækjum. Þeir sjá mikla möguleika fyrir nemendur sína að koma hingað til okkar á Vestfirði og fá dýrmæta reynslu í starfsnámi hjá fyrirtækjum á svæðinu.

Olivier hefur starfað sem enskukennari í 24 ár, fyrst í landbúnaðarskóla og síðan við sjávarútvegsskólann í Sète frá september 2024. Hann hefur jafnframt umsjón með alþjóðamálum skólans. Olivier lærði ensku og ítölsku við háskólann í Toulouse og lauk meistaragráðu í ensku. Hann hefur einnig verið virkur þátttakandi í Eurovision söngvakeppninni frá árinu 2014, meðal annars sem blaðamaður og þýðandi.

Erindið fer fram á kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða og hefst kl. 12.10. Erindinu er einnig streymt í gegnum zoom hlekk og má finna hann hér https://eu01web.zoom.us/j/69947471079

Fyrirlesturinn fer fram á ensku