Fræðimenn í Grímshúsi: Opið fyrir nýjar umsóknir til 1. Maí

Stofnun Ólafs Ragnars Grímssonar kynnti í nóvember 2022 verkefnið „Fræðadvöl í Grímshúsi” á Ísafirði. Nú hafa þær Dina Brode-Roger frá Bandaríkjunum og Seira Duncan frá Bretlandi dvalið í Grímshúsi og von er á fjórum fræðimönnunum árið 2024 og tveimur í byrjun árs 2025. Alls voru 251 umsækjendur frá um 60 löndum þegar fræðadvölin var fyrst auglýst.

Opnað hefur verið fyrir umsóknir fyrir seinni hluta 2025 og 2026. Umsóknarfrestur er til 1. maí næstkomandi. Umsóknarferlið fer fram á heimasíðu Grímsson Fellows. Fræðadvölin er í samvinnu við Hringborð Norðurslóða - Arctic Circle, Háskólasetur Vestfjarða, Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Akureyri og líftæknifyrirtækið Kerecis. Valnefndin er skipuð af Matthildi Maríu Rafnsdóttur, fyrir hönd Hringborðs Norðurslóða, Dr. Peter Weiss fyrir hönd Háskólaseturs Vestfjarða og Dr. Guðbjörgu Ástu Ólafsdóttur fyrir hönd Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og
Háskólans á Akureyri.

Áformað er að sérhver fræðimaður haldi fyrirlestur eða taki þátt í sérstökum samræðufundum; ýmist á Ísafirði eða við háskólana í Reykjavík eða Akureyri. Fræðadvölinni er ætlað að skapa erlendum og íslenskum vísindamönnum, sérfræðingum, fræðimönnum, rithöfundum og fleirum kost á því að dvelja í 2-6 vikur í Grímshúsi, Túngötu 3 á Ísafirði þar sem fjölskylda Ólafs Ragnars bjó á sínum tíma. Ólafur Ragnar Grímsson eignaðist helming hússins fyrir nokkrum árum og býður æskuheimili sitt, tvær hæðir og ris, sem dvalarstað fræðimanna.

Vísindamenn og sérfræðingar á sviðum Norðurslóða, loftslagsmála, umhverfisfræða, náttúrufræða, félagsvísinda, heilbrigðisvísinda, sjálfbærni, hreinnar orku, sagnfræða sem og rithöfundar geta sótt um að dvelja í húsinu á grundvelli alþjóðlegra auglýsinga.

Nánari upplýsingar veitir: Matthildur María Rafnsdóttir, matthildur@arcticcircle.org eða á Grímsson Fellows