Nemendum sem hófu nám í Haf- og strandsvæðastjórnun og Sjávarbyggðafræði hjá Háskólasetri Vestfjarða í ágúst, ásamt meistaranemum frá SIT (School of International Training) var boðið í nýnemaferð á dögunum til að hrista hópinn saman. Fagstjórar meistaranámsleiðanna beggja, Brack Hale og Randall Morgan Greene fóru með hópnum, en auk þess Jill Welter, kennari SIT hópsins og Íris Hrund Halldórsdóttir, sem kenndi meistaranemum HV fyrstu vikuna.
Farið var með rútu frá HV að morgni laugardagsins 30. ágúst og haldið sem leið lá að Mjólkárvirkjun þar sem kíkt var í stutta heimsókn og virkjunin skoðuð. Komið var við á Dynjanda þar sem nemendur gátu gengið upp með fossunum, tekið myndir og notið náttúrunnar. Að því loknu var haldið inn á Þingeyri þar sem vertarnir í Simbahöllinni reiddu fram dýrindis grænmetissúpu og brauð og gómsætar súkkulaðibitakökur í eftirrétt.
Eftir að hafa skoðað Þingeyri var haldið í Holt við Önundarfjörð til að fara í fjöruferð, sem reyndist svo afar viðburðarík þar sem nokkrir höfrungar mættu eins og eftir pöntun og léku listir sínar fyrir gestina, sem þótti mikil upplifun.
Fyrsta vikan í meistaranáminu við HV var annasöm, enda tvö námskeið í gangi og nemendur að byrja að aðlagast lífinu í nýju landi. Nýnemaferðin var því kærkomið uppbrot sem gaf nemendum tækifæri til að gera eitthvað skemmtilegt saman og kynnast hverju öðru betur og auðvitað fagstjórunum, sem munu fylgja þeim í gegnum næstu 2 árin í meistaranáminu.