Nemendur öðlast verklega innsýn í fiskifræði og fiskveiðistjórnun

Nemendur læra réttu handtökin
Nemendur læra réttu handtökin

Dr. James Kennedy, fiskifræðingur við Hafrannsóknastofnun, kennir um þessar mundir námskeiðið Fiskveiðistjórnun og fiskveiðitækni hér við HV. Í námskeiðinu er fjallað um helstu viðfangsefni hafrannsókna og fiskveiða, meðal annars stofnmat, tengsl fiska og búsvæða, lífsferla, stofnfræði og stjórnun. Megináhersla er lögð á að árangursrík stjórn og nýting auðlinda í hafinu byggi á traustri fiskifræði—þeirri vísindalegu þekkingu sem liggur að baki reglum og ákvörðunum um ekki aðeins hversu mikið má veiða af fiski og öðrum lífverum, heldur einnig hvar, hvenær og með hvaða hætti veiðar fara fram.

Hafrannsóknastofnun er stærsta rannsóknastofnun landsins á sviði haf- og ferskvatnsrannsókna og gegnir mikilvægu ráðgjafarhlutverki um skynsamlega nýtingu og verndun sjávar- og ferskvatnsauðlinda. Til að sinna því hlutverki framkvæmir stofnunin vísindalega leiðangra og rannsóknir á lífríki og veiðum. Í þessari viku fengu nemendur tækifæri til að tengja hugtök námskeiðsins við aðferðir í raunverulegum rannsóknum með verklegri vinnu—sem er mikilvægur hluti námskeiðsins, þar sem markmiðið er að nemendur geti safnað og metið vísindaleg gögn sem tengjast fiskifræði og fiskveiðistarfsemi.

Undir leiðsögn Dr. Kennedy krufðu nemendur þorsk og hrognkelsi til að fá innsýn í hvernig sýnatökur fara fram á afla sem veiddur er í rannsóknum Hafrannsóknastofnunar. Við slíka skoðun þarf að greina kyn og kynþroskastig hvers fisks og skrá magainnihald til að fá upplýsingar um fæðuval og fæðunám. Einnig voru kvarnir fjarlægðar—smá bein í höfuðkúpu fisksins (eyrnabein)—sem eru notuð til að meta aldur fiska og eru mikilvægur hluti gagna sem liggja að baki stofnmati. Þótt slík vinna sé ekki öllum að skapi (krufningar geta jú eðlilega reynst sumum óþægilegar), gaf hún nemendum dýrmæta innsýn í þá nákvæmu og kerfisbundnu vinnu sem liggur að baki þeim gögnum sem stýra fiskveiðistjórnun.