Í dag hefst kennsla námskeiðsins Svæðisumbreytingar og -þróun: Félagsvísindalegar kenningar og vinnulag, hjá Háskólasetri Vestfjarða. Á námskeiðinu verða svæðisbreytingar og -þróun skoðuð út frá félagspólitískum og -fræðilegum sjónarhornum. Byggt verður á fjölbreyttum, alþjóðlegum dæmum og nemendur fá starfs- og hugmyndamiðaða kennslu sem gerir þeim kleift að bera skynbragð á svæðisbundnar umbreytingar. Nemendur koma svo með innlegg inn í umræðu um svæðisþróun ásamt því að taka þátt í þróunarferlum í samstarfi við hagsmunaaðila.
Markmið námskeiðsins eru m.a. að nemendur geti metið á gagnrýninn hátt orðræðu um byggðaþróun og notast við fræðilegar hugmyndir er lúta að svæðisbundinni umbreytingu og þróun.
Kennari námskeiðsins er Dr. Joost Dessein, dósent við deild landbúnaðarhagfræði við Gent-háskóla í Belgíu. Dr. Dessein er með meistaragráðu í landbúnaðarverkfræði og meistaragráðu og doktorsgráðu í félags- og menningarlegri mannfræði, allt frá Kaþólska háskólanum í Louvain í Belgíu.
Við minnum á að öll meistaranámskeið sem kennd eru við Háskólasetur Vestfjarða eru opin þátttakendum jafnt frá háskólum sem atvinnulífi. Hafir þú áhuga á að sækja stök námskeið hjá Háskólasetri getur þú kynnt þér kennsluskrána okkar og sent inn umsókn um stakt námskeið.