Vísindaport framundan

Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir, verkefnastjóri Háskólaseturs Vestfjarða og umsjónarmaður Vísindap…
Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir, verkefnastjóri Háskólaseturs Vestfjarða og umsjónarmaður Vísindaports.

Á hverjum föstudegi yfir skólaárið er haldið Vísindaport í Háskólasetri Vestfjarða. Þetta eru 45 mínútna hádegisfyrirlestrar og eru efnistökin margvísleg, íbúar og aðrir gestir í Ísafjarðarbæ hittast þar yfir kaffibolla og hlýða á samborgara sína segja frá sínum viðfangsefnum, kynna verkefni og rannsóknir, tómstundir og önnur hugðarefni í máli og myndum. Efni Vísindaports eru afar fjölbreytt, en hér fyrir neðan má sjá yfirlit yfir þau Vísindaport sem eru frammundan:

Föstudagur 16. Febrúar kl. 12:10 - Svepparætur
Christine Palmer mun flytja erindi sem kallast "Svepparætur: Tré þurfa vini líka.". Í erindinu verður farið yfir hlutverk sveppróta á Íslandi, en svepparætur (Mycorrhiza) myndast við samlífi svepps og jurtar. Samlífið á sér stað við ræturnar þar sem einstakir sveppþræðir úr mýsli svepps leggja rætur hýsilsins undir sig. Erindið mun fjalla um þær núverandi aðgerðir sem eru í gangi til að skilja mikilvægi svepparóta fyrir trjárækt, kolefnisgeymslu og líffræðilegan fjölbreytileika vistkerfa. Fyrirlesturinn mun fara fram á ensku.

 

Föstudagur 23. Febrúar kl. 12:10 - Hjólandi ferðaþjónusta
Á föstudaginn þann 23. febrúar mun Halldóra Björk Norðdahl flytja erindi í Vísindaporti um Cycling Westfjords. Erindið kallast "Hjólandi ferðaþjónusta" og mun Halldóra fjalla um þróun reiðhjólaferðaþjónustu á Vestfjörðum og upplifun reiðhjólaferðamanna af svæðinu. Erindið mun fara fram á íslensku.

 

Föstudagur 1. Mars kl. 12:10 - Hamfarir í Himalajafjöllum
Nishtha Tewari mun flytja erindi sem kallast “Heilsa í sjóndeildarhringnum: Hamfarir í Himalajafjöllum”. Í háu fjalla þorpunum í Indversku Himalajafjöllunum er skortur á aðgengi að heilbrigðis innviðum og auðlindum sem leiðir til þess að daglega verða neyðartilvik þar sem ferðast þarf til borga eða milli þeirra. Í erindinu mun Nishtha fjalla um flutninga í dreifbýli og notkun opinberra innviða hjá tekjulágum heimilum sem leita sér heilbrigðisþjónustu. Erindið byggir á eins árs þjóðfræði vinnu sem fór fram í þorpum við landamæri Indlands og Tíbet og mun fara fram á ensku.

 

Föstudagur 8. Mars kl. 12:10 - Listasafn Ísafjarðar
Þann 8. Mars mun Rannveig Jónsdóttir, forstöðumaður Listasafns Ísafjarðar flytja erindi í Vísindaporti sem kallast “Safn í mótun - Listasafn Ísafjarðar í fortíð og framtíð”. Erindið mun fara fram á íslensku.


Bjarney Ingibjörg, verkefnastjóri Háskólaseturs

Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir er umsjónarmaður Vísindaports og er verkefnastjóri Háskólaseturs Vestfjarða. Bjarney er fædd og uppalin á Ísafirði og kannast eflaust margir við hana úr tónlistarlífinu. Hún stundaði tónlistarnám við Tónlistarskóla Ísafjarðar frá unga aldri og lauk síðar framhaldsnámi í söngkennslufræðum við Complete Vocal Institute í Kaupmannahöfn. Hún er einnig með lokapróf í kórstjórn frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar og hefur starfað sem tónlistarkennari í um 30 ár, lengst af við Tónlistarskóla Ísafjarðar.

Bjarney Ingibjörg útskrifaðist frá Háskólanum í Reykjavík nú í vor með meistaragráðu í verkefnastjórnun, MPM. Hún hefur einnig verið verkefnastjóri tónlistarhátíðarinnar „Við Djúpið“ sem var endurvakin fyrir tveimur árum.

„Þegar maður er búinn að vera mjög lengi að vinna við það sama, þá er svo gott að ögra sjálfum sér og fara út fyrir þægindarammann. Það var tilgangurinn minn með náminu en ég vildi samt tengja það við það sem ég hef verið að gera. Það er svo hollt fyrir mann að takast á við nýjar áskoranir, það heldur hausnum gangandi“ – segir Bjarney Ingibjörg

Efni Vísindaports eru afar fjölbreytt og þau sem hafa áhuga á að flytja erindi í Vísindaporti eða hafa hugmyndir eða ábendingar um áhugavert efni eða einstaklinga eru vinsamlegast beðin um að senda upplýsingar á bjarney.ingibjorg@uw.is. Einnig er hægt að senda tölvupóst og óska eftir því að vera á póstlista og fá tilkynningar um næstu Vísindaport.